Dagana 27. og 28. september nk. verður í húsakynnum SÍMEY á Akureyri haldinn sameiginlegur haustfundur Kvasis – samtaka fræðslu- og símenntunarmiðstöðva og Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins þar sem verður fjallað um fjölmargt áhugavert er lýtur að framhaldsfræðslunni í landinu, hvað er á döfinni, ýmis þróunarverkefni og nýjungar og framtíðina.
Þetta er í fyrsta skipti sem slíkur fundur er haldinn í samstarfi Kvasis og FA. Dagskrá fundarins, sem hefst um hádegisbil nk. þriðjudag og lýkur um hádegi á miðvikudag, má sjá hér til hliðar.
Valgeir B. Magnússon, framkvæmdastjóri SÍMEY, segir ánægjulegt að vera í hlutverki gestgjafans á þessum haustfundi en 66 þátttakendur af öllu landinu eru skráðir á fundinn. Valgeir segir að fjölmargt áhugavert sé döfinni í framhaldsfræðslunni og alltaf sé mikilvægt að bera saman bækur og stilla saman strengi. Vegna kóvid hafi ekki gefist tækifæri til þess að hittast í raunheimum síðan 2019 og því sé kærkomið að geta loksins náð fólki saman til skrafs og ráðagerða.
Á fundinum á þriðju- og miðvikudag verða tvær sameiginlegar kynningar og tólf vinnustofur. Streymt verður frá málstofum á fundinum. Einnig verður samhliða þessu haldinn fundur forstöðumanna símenntunarmiðstöðvanna og aukaaðalfundur Kvasis.