Að undanförnu hafa SÍMEY, Austurbrú og Fjarðabyggð unnið að raunfærnimati 22 starfsmanna íþróttahúsa og sundlauga í Fjarðabyggð (Neskaupstað, Eskifirði, Reyðarfirði, Fáskrúðsfirði, Stöðvarfirði og Breiðdalsvík). Verkefnið er langt komið og hefur gengið vel.
Á árunum 2021 og 2022 hélt SÍMEY utan um raunfærnimat tuttugu og sex starfsmanna íþróttamiðstöðva á Akureyri, í Dalvíkurbyggð, Fjallabyggð, Hrísey og Eyjafjarðarsveit. Að því loknu kynnti SÍMEY verkefnið víða um land og lýsti Fjarðabyggð áhuga á raunfærnimati fyrir starfsfólk í íþróttahúsum og sundlaugum í sveitarfélaginu. Úr varð að SÍMEY hafði samband við Austurbrú á Egilsstöðum, miðstöð símenntunar á Austurlandi, og sá starfsfólk Austurbrúar um að kynna raunfærnimatið fyrir starfsfólki íþróttamiðstöðva í Fjarðabyggð og tók svokölluð skimunarviðtöl við það. Helena Sif Guðmundsdóttir, náms- og starfsráðgjafi og verkefnastjóri í SÍMEY, kom síðan inn í verkefnið og hefur haldið utan um það. Hún sendi matslista og færnimöppur til þátttakenda og á starfsdegi starfsfólks íþróttamiðstöðvanna í Fjarðabyggð nutu þeir aðstoðar starfsmanna Austurbrúar og Magnúsar Árna Gunnarssonar, deildarstjóra íþróttamannvirkja í Fjarðabyggð, við að fylla út matslistana og skrá í matsviðtöl, sem er lokaáfangi raunfærnimatsins. Í kjölfarið voru matsviðtölin sett upp í gegnum fjarfundabúnað. Tveir matsaðilar hafa skipt þeim með sér, Gísli Rúnar Gylfason, íþrótta- og æskulýðsfulltrúi Dalvíkurbyggðar, og Erna Lind Rögnvaldsdóttir, forstöðumaður íþróttamiðstöðvar Eyjafjarðarsveitar. Helena Sif var með þeim í viðtölunum
Um raunfærnimat starfsfólks íþróttamiðstöðva í Fjarðabyggð gildir það sama og í öðrum atvinnugreinum að metin er samanlögð færni þess; starfsreynsla, starfsnám, frístundanám, nám í skóla, félagsstörf, búseta erlendis og fjölskyldulíf. Raunfærnimatið er ætlað þeim sem hafa litla, formlega menntun, það er staðfesting á raunfærni þátttakenda sem síðan er unnt að meta á móti formlegu námi eða kröfum atvinnulífsins. Skilyrði til raunfærnimats er að þátttakendur hafi náð 23 ára aldri og hafi að lágmarki þriggja ára starfsreynslu í viðkomandi starfi.
Nám í SÍMEY fyrir starfsfólk íþróttahúsa og sundlauga
Rétt er að rifja upp að árið 2018 fékk SÍMEY styrk úr Fræðslusjóði til þess að hæfnigreina störf í íþróttahúsum og sundlaugum. Í kjölfarið var námskráin Þróttur fyrir starfsfólk íþróttamannvirkja endurskoðuð og settar upp nýjar námskrár, annars vegar fyrir starfsfólk íþróttahúsa og hins vegar sundlauga. Námskrárnar voru staðfestar af Menntmálastofnun árið 2021 og eru aðgengilegar á vef Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins.
Á grunni þessara námskráa hefur SÍMEY sett upp nám fyrir starfsfólk sundlauga og íþróttahúsa sem er tvískipt, annars vegar vinnustaðanám og hins vegar fjarnám. Skráning er í fullum gangi.