SÍMEY og KHA – Kennslu- og upplýsingatæknimiðstöð Háskólans á Akureyri hafa gert með sér samning sem kveður á um afnot SÍMEY af upptökuveri KHA og að starfsmenn KHA veiti þjónustu sína við upptökurnar.
Veflægum námskeiðum hefur fjölgað mjög á síðustu misserum enda er með þeim unnt að ná til mun fleiri óháð búsetu. SÍMEY hefur nú þegar tekið ákveðin skref í þessa átt og með þessu formlega samstarfi við KHA eru tekin enn stærri skref í þessum efnum. Verkefnastjórar í SÍMEY hafa umsjón með gerð myndbandanna, sjá um forvinnuna í handritsgerð o.fl. og tæknimenn KHA annast upptökurnar – hljóð og mynd – og sjá um hina tæknilegu úrvinnslu.
Valgeir Magnússon framkvæmdastjóri SÍMEY segir að á liðnu haustmisseri hafi SÍMEY nýtt sér upptökuver KHA og það samstarf hafi gefist mjög vel. Það sé því gleðilegt að búið sé að forma frekara samstarf með formlegum, ótímabundnum samningi SÍMEY og KHA.
Valgeir nefnir að SÍMEY vinni nú að ýmsum verkefnum sem krefjist slíkrar myndbandavinnslu – t.d. í LOFTUM umhverfis- og loftlagsverkefninu og veflægu námi fyrir starfsfólk íþróttamannvirkja - og hann sér fyrir sér að aukin spurn verði eftir slíku námsefni fyrir ýmis starfstengd námskeið í framtíðinni. En ekki er nóg, segir Valgeir, að gera kennslumyndbönd, þau þurfi að vera vel og faglega gerð og í því ljósi sé samstarfið við KHA lykilaatriði.