SÍMEY og þjónustu- og ráðgjafarfyrirtækið Trappa hafa gert samning um að fyrirtækið bjóði upp á nám í íslensku í gegnum veraldarvefinn fyrir útlendinga. Verkefnið nefnist Íslenskuþjálfarinn og er ætlað fólki sem hefur íslensku ekki sem móðurmál en vill auka færni sína í töluðu máli.
Sem fyrr segir fer námið, sem er fjörutíu kennslustundir, fram á netinu og er ætlað hvort sem er litlum hópum eða einstaklingum. Einnig setur Trappa upp slík fjarnámskeið fyrir fyrirtæki og stofnanir.
Námskeiðið og námsefnið hefur verið unnið og þróað með styrk úr Sóknaráætlun Norðausturlands og er samstarfsverkefni Tröppu og SÍMEY. Núna á vorönn hafa verið gerðar tilraunir með slík námskeið í SÍMEY sem hafa gefið góða raun, eitt sumarnámskeið verður í júní og þráðurinn verður síðan tekinn upp aftur á haustönn.
Íslenskuþjálfari Tröppu er viðbót við það íslenskunám fyrir útlendinga sem hefur lengi verið í boði hjá SÍMEY á fjölbreyttum námskeiðum á 1. - 5. stigi og upp á þau verður boðið eftir sem áður.