Samstarf SÍMEY og Vinnumálastofnunar um nám fyrir atvinnuleitendur

Atvinnuleitendum stendur til boða fjölbreytt nám hjá SÍMEY núna á haustönn.
Atvinnuleitendum stendur til boða fjölbreytt nám hjá SÍMEY núna á haustönn.

SÍMEY og Vinnumálastofnun hafa tekið höndum saman um nám fyrir atvinnuleitendur. Þau styttri námskeið og lengra nám sem atvinnuleitendur bóka sig í hjá SÍMEY verður þeim að kostnaðarlausu.

Einn af alvarlegum fylgifiskum Covid 19 heimsfaraldursins er mikill samdráttur í efnahagslífinu og stórukið atvinnuleysi. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði á dögunum að ein af stærstu áskorunum stjórnvalda í gjörbreyttu efnahagsumhverfi væri að skapa störf og draga úr atvinnuleysi. Liður í stefnumörkun stjórnvalda er að gera atvinnuleitendum kleift að stunda nám sér að kostnaðarlausu og þar mun fullorðinsfræðslan gegna mikilvægu hlutverki.

Í upplýsingum Vinnumálastofnunar til atvinnuleitenda kemur m.a. fram hvernig þeir geti sótt um námsstyrki og námsframboð. Um er að ræða stök námskeið og vottaðar námsleiðir sem standa atvinnuleitendum til boða í námsverum SÍMEY á Akureyri og Dalvík.

Valgeir B. Magnússon, framkvæmdastjóri SÍMEY, segir ánægjulegt að stjórnvöld taki þetta skref til að auðvelda atvinnuleitendum að stunda nám í því skyni að styrkja sig til endurkomu á vinnumarkaðinn. Valgeir segist ekki eiga von á öðru en að atvinnuleitendur muni nýta sér þetta í ríkum mæli. Hann segir að reynslan sem framhaldsfræðslan fékk í kjölfar efnahagshrunsins árið 2008 nýtist vel í því stóra verkefni sem sé framundan, m.a. séu til staðar úrræði fyrir t.d. ungt fólk og fólk af erlendum uppruna.

Auk fjölbreyttra stakra námskeiða og vottaðra námsleiða er ástæða til þess að nefna að SÍMEY hefur í samstarfi við Vinnumálastofnun sett upp vefnámskeið, Betri skilningur og bætt samskipti – vellíðan og vinnugleði, sem er eingöngu ætlað atvinnuleitendum. Námskeiðið er í fjögur skipti, samtals 8-9 klukkustundir.

Einnig má nefna svonefnda Starfsleitarstofu, sem er 12 klst. námskeið þar sem farið er yfir helsta þætti markvissrar atvinnuleitar. Kortlögð er færni þátttakenda og kynnt hvernig standa beri að gerð ferilskrár og kynningarbréfs fyrir atvinnuleit.

Mikilvægt er að atvinnuleitendur sem vilja nýta sér námsframboðið í SÍMEY setji sig í samband við Vinnumálastofnun á Norðurlandi eystra. Hægt er að hafa samband við Vinnumálastofnun með því að senda tölvupóst á netfangið radgjafar.nordurlandeystra@vmst.is og einnig veita ráðgjafar í SÍMEY allar upplýsingar - sjá nánar á heimasíðu SÍMEY.