Sandra Sif Ragnarsdóttir er nýr starfsmaður hjá SÍMEY og annast náms- og starfsráðgjöf og ýmis önnur verkefni.
Sandra Sif er Austfirðingur, fædd og uppalin á Eskifirði. Hún fór í Menntaskólann á Egilsstöðum en lauk stúdentsprófi frá Verkmenntaskóla Austurlands í Neskaupstað árið 2008. Tók sér raunar hlé frá námi í um hálft ár og gerðist au pair í London. Að stúdentsprófi loknu vann hún um tíma í heimahögunum en flutti árið 2009 suður yfir heiðar og innritaðist í hjúkrunarfræði í Háskóla Íslands. Fann sig ekki í því námi og fór að vinna á leikskóla. „Mér líkaði svo vel að vinna á leikskólanum að ég ákvað að skrá mig í uppeldis- og menntunarfræði við Háskóla Íslands. Á þessum tímapunkti hafði ég ekki í huga að verða kennari en mér fannst námið bjóða upp á ýmsa aðra möguleika. Ég var komin af stað í þessu námi þegar ég flutti norður til Akureyrar og hélt áfram í fjarnámi,“ rifjar Sandra Sif upp.
Hún eignaðist börnin sín tvö 2012 og 2014 en hélt áfram fjarnáminu í HÍ og útskrifaðist með BA-próf í uppeldis- og menntunarfræði árið 2016. Eiginmaður hennar hefur verið lengi til sjós, er núna á frystitogaranum Sólbergi ÓF-1 sem Rammi hf. á Siglufirði gerir út. „Árið 2017 ákvað ég að halda áfram námi til meistaraprófs og skráði mig í náms- og starfsráðgjöf, sem er tveggja ára nám. Veturinn 2017-2018 gat ég einungis tekið hluta námsins í fjarnámi og því þurfti ég að keyra reglulega suður og var þar tvo daga í viku,“ segir Sandra Sif. Hún hefur markvisst haldið áfram náminu og útskrifast í júní nk. Sem liður í því var starfsþjálfun í framhaldsskóla, grunnskóla og fullorðinsfræðslu. Sandra var í starfsþjálfun í námsráðgjöf í Menntaskólanum á Akureyri, hún var um tíma hjá SÍMEY og tók síðan að sér námsráðgjöf í forföllum í Glerárskóla á Akureyri frá september á síðasta ári og fram í febrúar á þessu ári, er hún kom til starfa hjá SÍMEY.
„Ástæðan fyrir því að ég ákvað að fara í náms- og starfsráðgjöf að loknu námi í uppeldis- og menntunarfræði var sú að mér fannst áhugavert að geta lagt fólki lið á þann veg að það geti notið sín hvað best í námi og starfi. Starfsþjálfunin hér í SÍMEY veitti mér sýn inn í heim sem var mér nokkuð framandi en mjög spennandi og það var mér því ánægjuefni að geta fengið vinnu hér,“ segir Sandra. Hún segir að starf sitt sé ennþá að mótast en hún muni koma að ýmsu er tengist námsleiðum, t.d. varðandi ráðgjöf og eftirfylgni. Raunfærnimat verði einnig á hennar borði, m.a. í þjónustugreinum. „Mér líst mjög vel á þetta starf og þau fjölbreyttu verkefni sem ég vinn að,“ segir Sandra.
Hún segist ekki hafa haft nægilega mikinn tíma fyrir áhugamálin á meðan hún hafi verið í krefjandi námi til hliðar við vinnu og heimilið, en vonandi skapist örlítið meiri tími fyrir þau þegar líði á þetta ár. Sundið var áhugamál númer eitt í æsku, Sandra æfði sund hjá Austra á Eskifirði og hún segist hafa, mörgum árum síðar, rifjað upp þessa góðu tíma á nokkrum æfingum hjá görpum í Sundfélaginu Óðni á Akureyri. Einnig hafi hún mætt á æfingar hjá skokkhópnum UFA-Eyrarskokki á Akureyri sem hún segist hafa mikla ánægju af. Góða hreyfingu og útivist sér Sandra fyrir sér að geta lagt meiri áherslu á eftir að meistaranáminu lýkur í sumarbyrjun.