Nú stendur yfir skráning í raunfærnimat á vegum SÍMEY fyrir fólk sem starfar í sjávarútvegi eða í tengslum við sjávarútveg – fiskvinnslufólk, sjómenn og fólk sem starfar í netagerð.
Sem fyrr er markmiðið með raunfærnimatinu að þátttakendur fái reynslu sína og þekkingu af oft og tíðum margra ára starfi metna inn í nám auk þess sem þátttakendum eru veittar upplýsingar um hvaða leiðir þeim eru færar í námi. Einnig er litið á raunfærnimat sem öflugt tæki til þess að efla starfsfólk og gera það hæfara í sínu starfi. Raunfærnimatið er gert samhliða vinnu fólks.
Valgeir Blöndal Magnússon, framkvæmdastjóri SÍMEY, segir að raunfærnimat hafi sýnt sig að vera afar mikilvægur þáttur í að ýta undir að fólk sæki sér aukna starfsmenntun og um leið sé raunfærnimatið vel til þess fallið að efla starfsfólk í sínu starfi. Valgeir segir að á næstunni muni SÍMEY hafa samband við sjávarútvegsfyrirtæki við Eyjafjörð og kynna raunfærnimatið fyrir þeim. .Hann væntir góðrar þátttöku og bindur vonir við að í framhaldinu verði mögulegt næsta haust að hefja á Akureyri fjögurra anna fisktækninám í samstarfi við Fisktækniskóla Íslands, sambærilegt við nám sem SÍMEY býður nú upp á á Dalvík í samstarfi við Fisktækniskólann og Menntaskólann á Tröllaskaga. Það nám hófst sl. vor og segir Valgeir það hafa gengið afar vel og þátttaka mikil.