Þann 21. september sl. var undirritaður samstarfssamningur Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins við fjórar símenntunarmiðstöðvar – þar á meðal Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar - um tilraunaverkefni um fræðslu starfsmanna í ferðaþjónustu. Framkvæmd samningsins verður í höndum Hæfniseturs ferðaþjónustunnar sem FA vistar. Hinar þrjár símenntunarmiðstöðvarnar sem eiga aðild að samningnum eru Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum, Mímir – símenntun og Fræðslunetið – símenntun á Suðurlandi.
Verkefnið hefur það að markmiði að ná til fyrirtækja í ferðaþjónustu með fræðslu og þjálfun af ýmsu tagi. Verkferlar verða samhæfðir, aðilar munu skiptast á efni, ráðgjöf og öðru sem að gagni kemur til auka hæfni starfsfólks í ferðaþjónustu og hvernig ná má til fleiri fyrirtækja í ferðaþjónustu.
Valgeir B. Magnússon, framkvæmdastjóri SÍMEY, fagnar aðild SÍMEY að þessum samningi. Hann segir að unnið verði að framkvæmd hans í náinni samvinnu við Hildi Bettý Kristjánsdóttur, starfsmann Fræðumiðstöðvar atvinnulífsins, sem raunar er fyrrverandi starfsmaður SÍMEY.
Á næstunni verður hafist handa við heimsóknir til ferðaþjónustufyrirtækja á starfssvæði SÍMEY og þeim kynntir möguleikar í fræðslu fyrir fyrirtækin og fjármögnun fræðslunnar. Í hlut SÍMEY kemur einnig að halda utan um tölulegar upplýsingar um heimsóknirnar og árangur af þeim. Samkvæmt verkáætlun lýkur þessu verkefni að rösku ári liðnu, í október 2018.
Í janúar sl. var undirritaður samningur um Hæfnisetur ferðaþjónustunnar á grundvelli samþykktar Alþingis frá október 2016. Starfsemi þess miðar að því að uppfylla þarfir ferðaþjónustunnar fyrir aukna hæfni og auðvelda fyrirtækjum að fjárfesta í hæfni starfsmanna. Lögð er áhersla á samvinnu við greinina, aðila vinnumarkaðarins, fræðsluaðila og stjórnvöld við að þróa leiðtogafræðslu, námslotur fyrir starfsmenn í ferðaþjónustu, þrepaskipt starfsnám og raunfærnimat í starfsgreinum ferðaþjónustunnar.