Þann 15. september sl. efndu Jafnréttisstofa og Samband íslenskra sveitarfélaga til árlegs landsfundar um jafnréttismál sveitarfélaga í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri. SÍMEY kom að undirbúningi og framkvæmd fundarins, sem sóttu um 70 manns frá tæplega þrjátíu sveitarfélögum, bæði starfsmenn þeirra og kjörnir fulltrúar.
Lögum samkvæmt skulu sveitarstjórnir eigi síðar en ári eftir sveitarstjórnarkosningar (sem fóru síðast fram sl. vor) leggja fram til samþykktar jafnréttisáætlun til næstu fjögurra ára. Í áætluninni skulu sveitarfélög setja sér markmið og tilgreina aðgerðir til að koma í veg fyrir mismunun á grundvelli laga frá 2020 um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, laga frá 2018 um jafna meðferð einstaklinga á öllum sviðum samfélagsins utan vinnumarkaðar og laga frá 2018 um jafna meðferð einstaklinga á vinnumarkaði óháð kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, skertri starfsgetu, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu.
Af hálfu SÍMEY unnu að undirbúningi fundarins og við framkvæmd hans verkefnastjórarnir Helgi Þorbjörn Svavarsson og Sif Jónsdóttir.
Framsögu á fundinum höfðu Jón Fannar Kolbeinsson, lögfræðingur Jafnréttisstofu, Bryndís Elfa Valdemarsdóttir, sérfræðingur á Jafnréttisstofu, Marta Birna Baldursdóttir, sérfræðingur í fjármálaráðuneytinu, Tinna Kristbjörg Halldórsdóttir, verkefnastjóri hjá Austurbrú og Sigurður Kristinsson, prófessor, siðfræðingur og heimspekingur við Háskólann á Akureyri.
Helgi Þorbjörn Svavarsson segir að SÍMEY hafi í samstarfi við Jafnréttisstofu sett upp þrjár vinnustofur á fundinum þar sem rætt var um umfang jafnréttismála og til hverra það tekur. Spiluð voru stutt myndbönd með þremur ólíkum reynslusögum – í fyrsta lagi frá innflytjanda, í öðru lagi kynsegin einstaklingi og í þriðja lagi líkamlega fötluðum einstaklingi. Í annarri vinnustofu viðruðu þátttakendur hugmyndir um jafnréttismál og báru saman bækur sínar og í þriðju vinnustofunni var horft til framtíðar og hvernig sveitarfélög af mismunandi stærð og samsetningu geti séð fyrir sér að vinna jafnréttisáætlun.
Helgi segist meta það svo að landsfundurinn hafi gengið mjög vel og skilað þeim árangri sem hafi verið lagt upp með.