Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar vill í auknum mæli leggja áherslu á þjónusta við fyrirtæki og stofnanir, án þess þó að slaka á í framboði á fjölbreyttum námskeiðum fyrir einstaklinga. Liður í því að kynna aukna sókn SÍMEY inn á fyrirtækjamarkaðinn er útgáfa á nýjum bæklingi, sem nú er farið að dreifa til fyrirtækja og stofnana. Þar eru kynntir þeir margþættu möguleikar sem atvinnulífinu standa til boða, því óhætt er að segja að þar sé af mörgu af taka – eins og t.d. ráðgjöf, námskeiðahald, markþjálfun og þarfagreining.
Á heimasíðu SÍMEY eru alltaf nýjustu upplýsingar um þau námskeið sem eru í boði hverju sinni og er óhætt að segja að þau séu af ýmsum toga. Finni stjórnendur fyrirtækja ekki námskeið sem þeim hentar er SÍMEY tilbúin til að sérsníða þau að þörfum viðkomandi fyrirtækja. Einnig er boðið upp á styttri fyrirlestra, skipulagningu hópeflis, starfsdaga eða funda.
Eftir sem áður býður SÍMEY upp á námskeið og þjónustu fyrir erlenda starfsmenn, m.a. íslenskunámskeið og sérsniðin námskeið fyrir erlenda starfsmenn. Námskeiðin eru ýmist haldin innan veggja fyrirtækjanna eða í SÍMEY.
SÍMEY hefur nú þegar unnið mikið með mörgum fyrirtækjum á Eyjafjarðarsvæðinu. Nægir þar að nefna Samherja, Akureyrarbæ og Höld. Reynslan af samstarfinu við þessi tvö stóru eyfirsku fyrirtæki og Akureyrarbæ var almennt mjög jákvæð.
Til margra ára hefur SÍMEY starfað náið með Fræðslumiðstöð atvinnulífsins og nú hefur SÍMEY tekið upp samstarf við Hagvang um fræðslumál í fyrirtækjum og stofnunum og námskeiðahald.
Hinn nýi bæklingur, þar sem leitast er við að varpa ljósi á starfsemi SÍMEY á fyrirtækjasviði, er 24 síður. Auk ítarlegra upplýsinga í bæklingnum um það sem SÍMEY getur boðið upp á á þessu sviði er hann ríkulega myndskreyttur.
Starfsmenn Símenntunarmiðstöðvar Eyjafjarðar eru sem fyrr tilbúnir að koma í fyrirtæki og stofnanir og kynna það sem hún hefur upp á að bjóða á þessu sviði.