Þann 5. september sl. var formleg brautskráning sjö starfsmanna íþróttamannvirkja á Akureyri, Dalvík og í Hrísey úr raunfærnimati. Starfsmennirnir luku raunfærnimatinu sl. vor en þá tókst ekki að setja punktinn yfir i-ið með formlegri brautskráningu.
Í október og nóvember á síðasta ári tóku nítján starfsmenn íþróttamannvirkja á Akureyri, í Dalvíkurbyggð, Fjallabyggð og Eyjafjarðarsveit þátt í raunfærnimati og til viðbótar luku þessir sjö starfsmenn raunfærnimatinu sl. vor. Samtals hafa því á síðustu mánuðum samtals 26 starfsmenn íþróttamannvirkja í fjórum sveitarfélögum, Akureyri, Dalvíkurbyggð, Fjallabyggð og Eyjafjarðarsveit, lokið raunfærnimati.
Rétt er að rifja upp að árið 2011 vann Starfsmennt fræðslusetur í samstarfi við stéttarfélagið Kjöl og Akureyrarbæ námskrána Þrótt fyrir starfsfólk íþróttamannvirkja, þar sem var fjallað um samskipti og sjálfstyrkingu starfsmanna íþróttamannvirkja, samskipti við skóla, starfsumhverfi, tölvunotkun, sjálfsvörn, hreinsitækni o.fl. Árið 2018 fékk SÍMEY styrk úr Fræðslusjóði til þess að hæfnigreina störf í íþróttahúsum og sundlaugum og var í kjölfarið myndaður starfshópur fulltrúa Akureyrarbæjar, íþróttamannvirkja á Eyjafjarðarsvæðinu og Kjalar stéttarfélags. SÍMEY vann síðan ásamt Starfsmennt að endurskoðun námskrárinnar Þróttar frá 2011 og til urðu nýjar námskrár, annars vegar fyrir starfsfólk íþróttahúsa og hins vegar sundlaugarverði. Menntamálastofnun staðfesti námskrárnar í apríl 2021 og þær hafa síðan verið aðgengilegar á vef Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins.
En hvað felst í raunfærnimatinu? Í stuttu máli má segja að þessir tuttugu og sex starfsmenn fengu hæfni sína og þekkingu í starfi metna upp í nýju námskrárnar.
Almennt er raunfærnimat ætlað fólki 23 ára og eldri og þátttakendur þurfa að hafa að baki að minnsta kosti þriggja ára starfsreynslu í viðkomandi starfi, í þessu tilfelli í íþróttamannvirkjum.
Ingunn Helga Bjarnadóttir, verkefnastjóri hjá SÍMEY, segir að þetta verkefni hafi almennt gengið mjög vel og nú sé unnið að næsta skrefi; að setja upp formlegt nám á grunni hinna nýju námskráa, annars vegar fyrir starfsmenn íþróttahúsa og hins vegar sundlaugarverði. Ingunn segir stefnt að því að bjóða upp á námið á vorönn 2023.