Góð reynsla hefur verið af svokölluðum starfsleitarstofum sem SÍMEY hefur boðið upp á síðan í september sl. og eru settar upp fyrir fólk í atvinnuleit. Sjö starfsleitarstofum er lokið og sú áttunda er í þessari viku. Að hámarki eru sex þátttakendur í hverri starfsleitarstofu.
Emil Björnsson, verkefnastjóri hjá SÍMEY, segir starfsleitarstofuna ekki eiginlegt námskeið, miklu fremur sé henni best lýst sem vinnustofu þar sem þátttakendur fá aðstoð við að greina og skrá styrkleika sína og þekkingu, reynslu og menntun í ferilskrá.
Fjórar vinnulotur
Hver starfsleitarstofa er samtals tólf klukkustundir og skiptist í fjórar vinnulotur. Í fyrstu lotu er farið með þátttakendum í gegnum áhugasviðsgreiningu, í annarri lotu er unnin ferilskrá þar sem m.a. kemur fram reynsla viðkomandi og menntun, í þriðju lotu er fólki leiðbeint með gerð kynningarbréfs og einnig kynna fulltrúar Vinnumálastofnunar ýmis úrræði stofnunarinnar fyrir atvinnuleitendur. Í fjórðu og síðustu lotu starfsleitarstofunnar fá þátttakendur fræðslu um starfsviðtöl og þeir æfðir í þeim.
„Mér finnst starfsleitarstofurnar hafa gengið vel, þátttakendur lýsa ánægju með að boðið sé upp á þær í svo litlum hópum. Yfir sum atriði förum við með öllum þátttakendum en einnig erum við með einstaklingsviðtöl,“ segir Emil Björnsson.
Í samstarfi við Vinnumálastofnun
Þóra Pétursdóttir hjá Vinnumálastofnun á Akureyri er ánægð með hvernig til hefur tekist með starfsleitarstofurnar og hún telur þær skipta miklu máli. „Hóparnir í starfsleitarstofunum eru litlir og þjónustan einstaklingsmiðuð sem er mikill kostur. Vinnumálastofnun hefur jafnan verið með kynningarfundi fyrir fólk á atvinnuleysisskrá en vegna ástandsins hefur það ekki verið mögulegt núna og því tökum við hjá Vinnumálastofnun á Akureyri þátt í starfsleitarstofunum hjá SÍMEY og kynnum þar fyrir þátttakendum m.a. réttindi og skyldur atvinnuleitenda og ýmislegt er lýtur að atvinnuleit. Mér finnst fólk almennt vera ánægt með starfsleitarstofurnar, þær styrki atvinnuleitendur og búi þá vel undir næstu skref,“ segir Þóra.
„Við erum í samstarfi við fjölmarga um allt land um námskeið fyrir atvinnuleitendur. Við vekjum athygli atvinnuleitenda á að þeim stendur til boða að sækja um námsstyrki einu sinni á önn til þess að greiða fyrir starfstengd námskeið. Styrkurinn getur numið 75% af námskeiðsgjaldinu, að hámarki 80 þúsund krónur. Síðan er vert að geta þess að Vinnumálastofnun fer um áramót af stað með vinnumarkaðsúrræðið Nám er tækifæri fyrir atvinnuleitendur sem hafa verið samfellt sex mánuði eða lengur á atvinnuleysisskrá og vilja efla sig með því að fara í nám eða bæta við sig námi. Þetta úrræði tekur til verklegra greina á framhaldsskólastigi og háskólanáms í tæknigreinum, heilbrigðisgreinum og á kennslusviði,“ segir Þóra og bætir við að áfram verði virkt samstarf Vinnumálastofnunar og símenntunarmiðstöðva um ýmis námskeið fyrir atvinnuleitendur. „Við leggjum mikla áherslu á að þeir sem eru ekki með íslensku sem fyrsta mál taki tvö íslenskunámskeið á ári – eitt á önn. Að hafa ákveðna grunnfærni í íslensku styrkir atvinnuleitendur sem eru af erlendu bergi brotnir þegar þeir sækja um vinnu. Íslenskumat, sem m.a. SÍMEY býður upp á, er einnig mikilvægt. Matið er hugsað fyrir þá útlendinga sem hafa búið hér á landi í nokkurn tíma og náð töluverðri færni í tungumálinu. Fyrir þetta fólk er mikilvægt að fá færni sína í tungumálinu metna og skráða. Það skiptir máli í atvinnuleitinni.“
Öll þau úrræði sem atvinnuleitendum standa til boða hafa að sögn Þóru það að markmiði að styrkja þá í atvinnuleit og stuðla að virkni þeirra. „Við viljum að fólk sem er án atvinnu og í atvinnuleit haldi virkni. Það er ekki alltaf auðvelt en það skiptir miklu máli,“ segir Þóra Pétursdóttir.