Ein af þeim námsleiðum sem SÍMEY bauð upp á núna á vorönn í samstarfi við Vinnumálastofnun var Sterkari starfsmaður, hundrað klukkustunda nám sem byggir á vottaðri námskrá Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins. Námið hófst í febrúar og því luku átta manns skömmu eftir páska. Umsjón með náminu höfðu Helgi Þ. Svavarsson verkefnastjóri og Sandra Sif Ragnarsdóttir, náms- og starfsráðgjafi og verkefnastjóri.
SÍMEY hefur oft áður boðið upp á þessa námsbraut enda hefur reynslan af henni verið mjög góð. Helgi segir að í stórum dráttum sé efni hennar tvíþætt, annars vegar sjálfstyrking og samskipti og hins vegar upplýsingatækni.
„Helmingur af þessum hundrað klukkustundum er upplýsingatækni, sem Vilbeg Helgason kenndi, þar sem farið var í marga hagnýta hluti í tölvunotkun.
Í kjölfarið á náminu fóru þeir átta sem luku því í raunfærnimat í almennri starfshæfni. Raunfærnimatið var ekki í okkar áætlun þegar við fórum af stað með námið í febrúar en við ákváðum að bæta því við vegna þess að Sterkari starfsmaður og almenna starfshæfnin tóna mjög vel saman. Frá því að náminu lauk eftir páska höfum við farið í gegnum þetta raunfærnimat og hluti af því eru viðtöl við þátttakendur. Við erum þessa dagana að ljúka þeim viðtölum og þar með þessu verkefni, sem ég tel að hafi tekist vel og mér fannst þátttakendur líta námið og raunfærnimatið mjög jákvæðum augum,“ segir Helgi Þ. Svavarsson.