Í dag brautskráði SÍMEY tíu nemendur úr náminu „Sterkari starfsmaður“, sem er 150 kennslustunda námsleið á fyrsta hæfniþrepi og byggir á námsskrá frá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins. Námið hefur verið unnið í samvinnu við „Atvinna með stuðningi“ hjá Vinnumálastofnun. Er þetta í fyrsta skipti sem slíkt nám er sett upp hér á landi í samvinnu símenntunarmiðstöðvar og Vinnumálastofnunar.
Valgeir Blöndal Magnússon, framkvæmdastjóri SÍMEY, flutti ávarp við brautskráninguna í dag og það sama gerði Helgi Þorbjörn Svavarsson, verkefnastjórI hjá SÍMEY, sem hefur haft yfirumsjón með náminu. Að því búnu afhentu þeir þátttakendum í náminu viðurkenningar sínar og blóm.
Námið hófst í nóvember á síðasta ári og er í meginatriðum tvíþætt, annars vegar upplýsingatækni og hins vegar sjálfsstyrking og samskipti. Námsleiðin er sérstaklega sett upp með hliðsjón af þörfum fólks með stutta skólagöngu sem vill auka færni sína í upplýsingatækni og tölvum.
Helgi Þorbjörn Svavarsson segir að námið hafi í heildina gengið mjög vel og engin spurning sé að það gagnist þátttakendum mjög vel og sé til þess fallið að efla og styrkja fólk í starfi og daglegu lífi.
Sem fyrr segir hefur sambærilegt fræðsluverkefni ekki áður verið unnið hérá landi í samvinnu símenntunarmiðstöðvar og Vinnumálastofnunar og segir Helgi ánægjulegt hversu vel hafi tekist til og í ljósi reynslunnar verði í framtíðinni stefnt að því að halda eitt slíkt námskeið á hverjum vetri.