Stökkpallur er heiti á námsleið hjá SÍMEY sem sextán nemendur byrjuðu á 19. janúar sl. Þar af komu fjórtán nemendur í gegnum Vinnumálastofnun og tveir frá Fjölsmiðjunni. Umsjón með náminu hafa Anna Lóa Ólafsdóttir verkefnastjóri hjá SÍMEY og Guðfinna Árnadóttir frá Vinnumálastofnun. Náminu lýkur 30. mars nk.
Stökkpallur er hluti af námskrám Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins og er 180 klukkustunda langt. Áhersla er lögð á að byggja upp samskiptafærni, efla sjálfstraust þátttakenda og þjálfa þá til atvinnuþátttöku í mismunandi starfsumhverfi eða til áframhaldandi náms. Þá er lögð áhersla á að þátttakendur vinni markvisst að eigin færniuppbyggingu með markmiðasetningu, þjálfun í samskiptum og tjáningu og skapandi verkefnum.
Anna Lóa segir að mikið hafi verið lagt upp úr því að skapa gott andrúmsloft fyrir hópinn og byrja hvern dag á morgunmat og spjalli og efla þannig félagstengslin til að auka líkur á því að hópurinn sjálfur væri ákveðið félags- og stuðningsnet. "Í stuttu máli er þessi nemendahópur – sem er á aldrinum 17-28 ára - algjörlega til fyrirmyndar. Þátttakendur töluðu strax um að námið hefði komið þeim á óvart, það væri gott að hitta aðra í sömu stöðu og þetta væri nauðsynlegt til að snúa sólarhringnum við og komast í rútínu. Þátttakendur hafa lýst yfir ánægju sinni og talað um mikla fjölbreytni, áherslu á sjálfstyrkingu og tengsl við atvinnulífið,“ sagði Anna Lóa og bætti við að einn þátttakenda hefði orðað það svo að námið hefði orðið til þess að hann hafi farið að hugsa hlutina upp á nýtt og séð þá í öðru ljósi. Þá nefndi Anna Lóa að gestir sem hafi komið í heimsókn úr atvinnulífinu hafi hrósað hópnum fyrir góðar móttökur og gagnlegar og áhugaverðar spurningar.
„Við hjá SÍMEY og þátttakendur erum mjög ánægð með hvernig til hefur tekist og við stefnum að því að hafa Stökkpall aftur á boðstólum - svo framarlega sem þörfin verði til staðar,“ segir Anna Lóa Ólafsdóttir.