Tveir af nemendunum sem tóku þátt í Gefum íslensku séns – viðburði í SÍMEY í gær eru Flora Neumann frá Þýskalandi og Peter Höller frá Austurríki. Bæði hafa þau búið um nokkurra ára skeið á Íslandi og hafa löngun til þess að læra íslenskuna eins vel og nokkur kostur er. Þau eru sammála hugmyndafræðinni í Gefum íslensku séns, þ.e. að Íslendingar tali íslensku við fólk af erlendum uppruna sem vill læra íslensku, enda sé það mikilvægur þáttur í því að það öðlist æfingu og færni í að tala tungumálið.
Peter Höller hefur búið í fimm ár á Íslandi og kann því eitt og annað fyrir sér í íslenskunni. Hann situr nú þriðja stigs námskeið (A2-1) í íslensku, það fyrsta sem hann tekur í SÍMEY.
Það er mjög mikilvægt fyrir mig að fá tækifæri til þess að tala íslenskuna. Ég er tölvufræðingur og að mestu leyti starfa ég einn, þ.e.a.s. ég hef ekki tækifæri til þess að tala við vinnufélaga. En oftast fara þau samskipti sem ég á við fólk fram á ensku.
Það sem mér finnst erfiðast í íslenskunni er að hlusta og skilja vegna þess að margir tala hratt. Ef fólk talar hægt og skýrt er auðveldara að skilja. Mér gengur betur að lesa texta, til dæmis hef ég fengið ágætis þjálfun í að skilja texta með því að lesa glæpasögur eftir Arnald Indriðason. Vissulega notast ég við orðabók því mörg orð skil ég ekki en aðalatriðið er að ná samhenginu.
Íslenskan er vissulega erfitt tungumál því ef við berum hana saman við t.d. þýsku er mikið um heiti í þýsku sem eiga sinn uppruna í latínu og þessi sömu heiti koma fyrir í mörgum öðrum germönskum og rómönskum tungumálum. En latínan hjálpar lítið sem ekkert til í íslenskunni.
Ég get ekki sagt til um hvaða aðferð er best til þess að læra íslensku enda held ég að það sé persónubundið. En mín áhersla er á að lesa íslensku og það hefur gefist mér vel. En það er gott fyrir mig að fá meiri þjálfun í að tala og því er mikilvægt að fá tækifæri til þess í íslenskukennslunni í SÍMEY.
Flora er nemandi á fyrsta ári í Menntaskólanum á Akureyri. Hún kom til Íslands árið 2019 með móður sinni og var í efri bekkjum grunnskóla í Giljaskóla á Akureyri en síðan lá leiðin í MA.
Mér gengur bærilega vel í íslenskunni. Ég skil hana að töluverðu leyti en auðvitað ekki allt. Ef ég skil ekki slæ ég orðin inn í þýðingarforrit eins og Google Translate í símanum. Það kemur vissulega fyrir að ég skil ekki það sem kennararnir eru að segja í tímum en þá er gripið til enskunnar.
Ég les ekki mikið á íslensku, eiginlega bara það sem fyrir okkur er lagt að lesa í skólanum. Mér finnst mikilvægast að byggja upp orðaforða sem hjálpar mér að skilja það sem fólk segir, orðaforðinn er mikilvægari en málfræðin.