Fimmtudaginn 6. apríl nk. kl. 08:30 - 10:00 verður morgunverðarfundur í boð SÍMEY fyrirtækjasviðs í húsakynnum SÍMEY við Þórsstíg, þar sem dr. Sigrún Gunnarsdóttir heldur fyrirlestur um þjónandi forystu. Við sama tækifæri verður kynntur fyrirtækjabæklingur SÍMEY, sem nýlega kom út. Fyrirlestur dr. Sigrúnar er ætlaður stjórnendum fyrirtækja og er þátttakendum að kostnaðarlausu.
Dr. Sigrún Gunnarsdóttir er dósent við Háskólann á Bifröst og hefur einnig kennt við aðra hérlenda háskóla. Jafnframt leiðir hún Þekkingarsetur um þjónandi forystu. Í Háskólanum á Bifröst er Sigrún verið dósent á viðskiptasviði með áherslu á kennslu og leiðsögn rannsókna um forystu og stjórnun.
Í fyrirlestri sínum í SÍMEY mun Sigrún fjalla um hvernig svokölluð þjónandi forysta (Servant Leadership) getur verið leið til að bæta árangur á vinnustöðum með áherslu á markviss samskipti og samvinnu. Í því sambandi mun hún fjalla um hvernig nýta megi góða hlustun, skarpa sýn á tilgang verkefna, sjálfsþekkingu og auðmýkt til að rækta innri starfshvöt og ábyrgðarskyldu sem verði síðan grunnur að starfsánægju og árangri fyrirtækja.
Í einni af mörgum tímaritsgreinum sem Sigrún hefur skrifað um þjónandi forystu skilgreinir hún viðfangsefnið á þennan hátt: „Þjónandi forysta er ólík hugmyndum um stjórnun og forystu sem ríkt hafa hér á landi undanfarna áratugi. Hún felur í sér mannúð og siðgæði sem birtist í umhyggju fyrir hagsmunum og velferð annarra framar eigin völdum og vegsauka. Þjónandi forysta grundvallast á jafningjabrag, samstilltri þátttöku starfsfólks og samfélagslegri ábyrgð. Hugmyndin gerir kröfu til sjálfsþekkingar og innri styrks leiðtogans umfram það sem tíðkast í viðteknum stjórnunarstíl og forystukenningum. Hið einstaka er að forystan er veitt með þjónustu við samstarfsfólk og samfélag.“
Skráning á morgunverðarfyrirlesturinn 6. apríl nk. er hér á heimasíðu SÍMEY. Rétt er að undirstrika að morgunverðurinn og fyrirlesturinn er þátttakendum að kostnaðarlausu.
Sem fyrr segir verður við sama tækifæri nýlegur fyrirtækjabæklingur SÍMEY kynntur en hann var gefinn út í nóvember á síðasta ári og gefur gott yfirlit yfir þá margþættu þjónustu sem SÍMEY býður atvinnulífinu upp á. Óhætt er að segja að margt sé í boði, t.d. ráðgjöf, námskeiðahald, markþjálfun og þarfagreining.