Tólf dyraverðir voru brautskráðir í gærkvöld í SÍMEY eftir sex kvölda námskeið þar sem farið var yfir ýmislegt sem dyravörðum er nauðsynlegt að kunna skil á í starfi sínu.
SÍMEY hefur lengi haldið slík dyravarðanámskeið í samvinnu við Einingu-Iðju og lögregluna á Norðurlandi eystra, sum árin eitt námskeið, stundum tvö á ári. Einnig var núna haldið endurmenntunarnámskeið fyrir dyraverði sem var þrjú kvöld.
Dyravarðaámskeiðið hófst 24. mars sl. og því lauk í gær, 2. apríl. Lágmarksaldur þeirra sem vilja starfa sem dyraverðir er 20 ár og skulu þeir hafa hreint sakavottorð.
Á dyravarðanámskeiðinu sem lauk í gær fjallaði Agnes Björk Blöndal, aðstoðarsaksóknari hjá lögreglunni á Norðurlandi eystra, um lög um veitinga- og gististaði, skemmtanahald, borgarlega handtöku, áfengislög og reglugerð og leyfi vegna áfengisveitinga. Magnús Páll Björgvinsson, kollegi Agnesar hjá lögreglunni á Norðurlandi eystra fjallaði um fíkniefni, skoðum skilríkja og samskipti dyravarða og lögreglu. Þá kynnti Tómas Pálsson frá Atlantic Jiu jitsu eitt og annað um sjálfsvörn og handtökur.
Farið var yfir alla grunnþætti í skyndihjálp enda mikilvægt að dyraverðir kunni að bregðast rétt við ef eitthvað út af bregður þar sem þeir starfa. Valdís Ösp Jónsdóttir fjallaði um neyðarmóttöku SAk, Baldvin Ólafsson frá VÍS fjallaði um tryggingamál dyravarða, rætt var um brunavarnir og farið í vettvangsferð til þess að skoða hvernig standa skuli að þeim málum og loks fjallaði fulltrúi frá Einingu-Iðju um réttindi og skyldur dyravarða.