Þann 15. ágúst sl. voru 27 starfsmenn í fiskvinnslu Útgerðarfélags Akureyringa og Samherja á Dalvík brautskráðir úr raunfærnimati í fiskvinnslu, þar af 18 starfsmenn á Akureyri en 9 á Dalvík.
Raunfærni felur í sér samanlagða færni sem einstaklingur hefur náð með t.d. starfsreynslu, starfs-, frístunda- eða skólanámi, félagsstörfum og fjölskyldulífi.
Þeir starfsmenn í fiskvinnslu sem luku raunfærnimatinu með formlegum hætti um miðjan ágúst hafa margir að baki langa starfsreynslu í fiskvinnslu og því aflað sér mikillar þekkingar.
Síðastliðið vor tóku ráðgjafar hjá SÍMEY viðtöl við umrædda starfsmenn og síðan var unnið úr þeim. Almennt gekk raunfærnimatið mjög vel og leiddi í ljós mikla færni starfsmannanna, að sögn Svanfríðar Ingu Jónasdóttur, verkefnastjóra hjá SÍMEY. Hún segir að síðustu daga hafi verið rætt við þessa starfsmenn og þeim kynntir möguleikar á því að innritast í nám í fisktækni, sem er fjögurra anna nám, skipulagt með vinnu. Um 20 starfsmenn Samherja á Dalvík hafa stundað slíkt nám þar og eru nú hálfnaðir með það. Þessir nemendur útskrifast sem fisktæknar frá Menntaskólanum á Tröllaskaga næsta vor, en hann er einskonar móðurskóli þessa náms.
Svanfríður segir mjög góða reynslu af fisktæknináminu á Dalvík og hún muni koma að góðum notum við skipulagningu sambærilegs náms á Akureyri, ef af því verði en það mun skýrast á næstu dögum.
Kristín Björk Gunnarsdóttir, verkefnastjóri hjá SÍMEY, tók þessar myndir við við brautskráninguna 15. ágúst sl. Auk fiskvinnslufólksins og starfsmanna SÍMEY var Ásdís V. Pálsdóttir verkefnastjóri hjá Fisktækniskóla Íslands viðstödd brautskráninguna.