Brautskráning SÍMEY í gær var sérlega ánægjuleg fyrir Jakob Þór Þórðarson og Guðlaugu Sigríði Tryggvadóttur á Grenivík, því þau brautskráðust bæði, hann sem fisktæknir og hún sem félagsliði.
Guðlaug starfar á hjúkrunarheimilinu Grenilundi á Grenivík. Hún hafði aflað sér víðtækrar starfsreynslu þegar hún ákvað að fara í raunfærnimat í SÍMEY og í framhaldinu ákvað hún haustið 2018 að hefja þar félagsliðanám. Raunfærnimatið gerði það að verkum að Guðlaug þurfti ekki að taka alla námsáfangana á félagsliðabrúnni og náði að ljúka náminu í byrjun þessa árs, sem kom sér vel því snemma í desember 2019, fyrir hálfu ári, fæddist sonur þeirra Jakobs, Þórður Geir. Guðlaug segir að félagsliðanámið hafi í senn verið mjög skemmtilegt og hagnýtt og hún nýti sér þekkingu úr náminu á degi hverjum í starfi sínu á Grenilundi.
Jakob Þór lauk stúdentsprófi af íþróttabraut VMA vorið 2015 og var síðan veturinn 2017-2018 á ferðamálabraut Háskólans á Hólum. „Ég kláraði fyrsta árið í náminu en ég sá sjálfan mig ekki starfa sem ferðamálafræðingur í framtíðinni. Ég lét því staðar numið í ferðamálafræðinni og hóf störf í frystihúsi Gjögurs á Grenivík, sem ég þekkti vel til því á Grenivík er ég fæddur og uppalinn. Við keyptum síðan hús á Grenivík og hófum þar búskap og ég starfa í frystihúsinu hjá Gjögri og hef leyst þar af sem verkstjóri. Ég fór í raunfærnimat í fisktækni sl. haust og í framhaldinu ákvað ég að fara í fisktækninámið hjá Fisktækniskóla Íslands og tók það hundrað prósent í fjarnámi. Námið, sem var í senn skemmtilegt og gagnlegt, gat ég tekið á mínum hraða sem hentaði mér mjög vel. Ég fékk hvatningu frá yfirmönnum hjá Gjögri að fara í námið og það skipti verulegu máli. Ég hef íhugað og mun skoða í framhaldinu að skrá mig í gæðastjórnunarnám í Fisktækniskólanum,“ segir Jakob Þór.