„Þetta var mjög gefandi og námið var frábært í alla staði,“ segir Anna Ólafsdóttir, nemandi á námskeiðinu Fræðsla í formi og lit, sem Bryndís Arnardóttir – Billa og Guðmundur Ármann Sigurjónsson kenna saman í SÍMEY. Anna var í námshópnum sem lauk náminu sl. vor og hafði þá verið í því á vor- og haustmisseri 2019 og vormisseri 2020. Til stóð að ljúka náminu, eins og venja er til, með sýningu á verkum nemenda í húsæði SÍMEY við Þórsstíg en Covid 19 faraldurinn setti strik í reikninginn á vormánuðum í þessu eins og svo mörgu öðru og var niðurstaðan sú að nemenendahópurinn efndi til sýningar á verkum sínum í Deiglunni dagana 1. og 2. ágúst sl. Sýningin gekk glimrandi vel og sóttu hana um 200 manns þessa tvo sýningardaga.
„Námskeiðið tókst mjög vel og sýningin í Deiglunni var frábærlega sótt. Við vorum mjög sátt með útkomuna,“ segir Bryndís Arnardóttir. Hún segir að vissulega hafi Covid gert erfitt fyrir á vormisseri þegar nemendum var frá og með mars ekki heimilt að koma í húsnæði SÍMEY. Hluti kennslunnar hafi verið færður í fjarnám en síðan hafi verið unnt að fá nemendur aftur inn í stærra rými í SÍMEY og fylgja þannig öllum sóttvanareglum. „Til viðbótar við sjálft námið eru samverustundirnar nemendum ákaflega mikilvægar og því var gott að geta lokið námskeiðinu með þessum hætti. Niðurstaðan var síðan sú að efna til þessarar vel heppnuðu nemendasýningar í Deiglunni,“ segir Billa. Helgi Þorbjörn Svavarsson tók þessar myndir á sýningunni.
Guðmundur Ármann kenndi Fræðslu í formi og lit á haustönn 2019 og Billa kenndi síðan á vorönn. Þetta námskeið hafa þau lengi kennt saman og það hefur jafnan verið afar vinsælt. Enn á ný hefst slíkt námskeið í september nk.
Anna Ólafsdóttir orðar það svo að það hafi verið forréttindi að njóta leiðsagnar þessara þrautreynduu kennara, Guðmundar Ármanns og Billu, á námskeiðinu. Þau hafi m.a. farið í fjarvíddarteikningu, listasögu, módelteikningu, vatnslitamálun, akrílmálun og ekki síst að vinna með hugmyndir frá grunni og koma þeim í myndverk.
Áður en Anna innritaði sig í Fræðslu í formi og lit hafði hún setið nokkur styttri námskeið en hún segir að Guðmundur Ármann og Billa hafi í sameiningu sett punktinn yfir i-ið. Dags daglega er Anna í krefjandi starfi við Háskólann á Akureyri en hún segir að myndlistin sé andleg næring og góð hvíld frá hinu daglega amstri.
Á vordögum ákváðu nemendurnir í námshópnum, sem kallar sig Besti hópurinn og Jói (þó svo að eini karlmaðurinn í hópnum heiti Hallur!), að halda áfram hópinn og hafa þeir nú tekið á leigu vinnustofurými í miðbæ Akureyrar þar sem listsköpunin heldur áfram af fullum krafti.