„Að mínu mati gekk verkefnið mjög vel og allir sem tóku þátt og komu að þessu áorkuðu miklu á stuttum tíma,“ segir Sif Jóhannesdóttir, verkefnastjóri hjá SÍMEY, um rafrænt fyrirtækjaþing Akureyrarbæjar sem SÍMEY vann að í samstarfi við Akureyrarstofu og Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi eystra – SSNE.
Í nóvember á síðasta ári hófst undirbúningur fyrir þingið en ljóst var að það yrði að halda rafrænt vegna Covid 19 faraldursins. SÍMEY útfærði tæknilegar lausnir við framkvæmd þingsins og kom að skipulaginu á ýmsan hátt. Þingið var síðan haldið 14. janúar sl. og tóku þátt fulltrúar milli þrjátíu og fjörutíu fyrirtækja á Akureyri. Ráðgjafar SÍMEY héldu utanum og stýrðu umræðum á þinginu.
„Þingið var haldið í gegnum Zoom fjarfundakerfið og það gekk mjög vel. Í upphafi voru allir þátttakendur saman í málstofu en síðan var þeim skipt í fimm hópa; fulltrúar fyrirtækja með útibú á Akureyri voru saman í hópi, í öðrum fulltrúar stórra fyrirtækja, fulltrúar millistórra fyrirtækja í þriðja hópnum, fulltrúar lítilla fyrirtækja í þeim fjórða og einyrkjar í fimmta hópnum,“ segir Sif.
Í lok þingsins var könnun lögð fyrir þátttakendur í gegnum könnunarkerfið Mentimeter þar sem viðhorf þeirra voru dregin fram, m.a. var spurt hvernig fyrirtækin horfðu til næstu mánaða og ára. Eftirtektarvert var að mikill meirihluti þátttakenda sá fyrir sér aukin umsvif í atvinnurekstri á næstu misserum.
Í kjölfar fyrirtækjaþingsins eru ráðgjafar SÍMEY nú að draga saman upplýsingar og ólík viðhorf þátttakenda sem fram komu á þinginu, sem síðan er ætlunin að nýta við mótun nýrrar atvinnustefnu og aukinnar markaðssóknar Akureyrarbæjar.