Dagana 20. og 21. júní sl. var vinnustofa í SÍMEY um Evrópska tungumálarammann og innleiðingu hans í íslensku sem öðru máli. Í vinnustofunni tóku þátt fulltrúar flestra símenntunarmiðstöðvanna og Menntamálastofnunar. Verkefnastjórar frá Studieskolen í Kaupmannahöfn stýrðu vinnustofunni.
Segja má að vinnustofan hafi verið lokapunkturinn í þróunarverkefni sem SÍMEY hefur unnið að í samstarfi við Studieskolen síðustu tvö ár um veflægt hæfnimat í íslensku sem öðru máli.
Studieskolen er öflugur tungumálaskóli þar sem fólk getur lært ýmis tungumál. Nemendur hans hafa aðgang að hæfniprófinu, sem prófar í fjölmörgum tungumálum út frá hæfniviðmiðum Evrópska tungumálarammans, og því aðgengilegt að velja sér námskeið við hæfi.
Vorið 2020 styrkti Þróunarsjóður framhaldsfræðslunnar SÍMEY til þess að þýða hæfnimatið og gera það aðgengilegt á vefnum. Þeirri vinnu lauk á síðasta ári og er nú aðgengilegt nemendum SÍMEY sem og öðrum fræðsluaðilum. Að hæfnimatinu unnu að hálfu SÍMEY verkefnastjórarnir Kristín Björk Gunnarsdóttir og Sif J. Ástudóttir.
Veflæga hæfnimatið nýtist fullorðnum innflytjendum sem læra íslensku þar sem það gefur þeim upplýsingar um kunnáttu þeirra og færni í málinu, hvaða íslenskunámskeið henta þeim og er jafnframt nytsamlegt þegar sótt er um vinnu sem krefst ákveðinnar kunnáttu í málinu. Hæfnimatið tekur til hlustunar, málfræði, lesskilnings og samskipta. Um leið er það fræðsluaðilum mikilvægur leiðarvísir í því að setja upp námshópa þar sem þátttakendur hafa svipaða kunnáttu í tungumálinu, til þess að kennslan verði markvissari og betri.
Viðfangsefni vinnustofunnar 20.-21. júní sl. var Evrópski tungumálaramminn, hugmyndafræðin og uppbygging námskeiða út frá rammanum. Kristín Björk Gunnarsdóttir segir að rætt hafi verið vítt og breitt um stöðu íslenskukennslunnar sem annars tungumáls, hvar skóinn kreppi og hvaða leiðir séu til úrbóta. Almennt hafi verið mikill samhljómur um að gera þurfi breytingar til að mæta þörfum fólks í því skyni að íslenskan nýtist betur í daglega lífi.
Kristín segir að vegna kóvidfaraldursins hafi hæfniprófið áður verið kynnt á netfundum en nú hafi gefist kærkomið tækifæri til þess að hittast og fara ítarlega yfir það og reifa íslenskukennsluna frá ýmsum hliðum. Mikill fengur hafi verið af því að fá fulltrúa Studieskolen hingað til þess að fara yfir hvað felist í hæfnimatinu og tengingu þess við Evrópska tungumálarammann. Vinnustofan hafi verið í senn mjög gagnleg og fróðleg fyrir fulltrúa símenntunarmiðstöðvanna og Menntamálastofnunar í því skyni að samræma námskeiðslýsingar og kennslu í íslensku sem öðru máli, í samræmi við Evrópska tungumálarammann.
Kristín segir umræðuna á vinnustofunni hafa verið mikilvæga og gott veganesti í áframhaldandi vinnu í haust en þá hefst samstarfsverkefni SÍMEY, Austurbrúar, Mímis og Studieskolen, styrkt af Nordplus, sem felur í sér að endurmóta í samstarfi við íslenskukennara innan framhaldsfræðslunnar fyrsta hluta íslenskukennslunnar - A1 samkvæmt Evrópska tungumálarammanum.
„Það sem mér fannst koma skýrt fram í umræðum á vinnustofunni er að við þurfum að hugsa íslenskukennsluna svolítið upp á nýtt, út frá því hvaða íslenskukunnáttu nemendur þurfi að hafa tileinkað sér til þess að geta bjargað sér í daglegu lífi. Fram kom sú skoðun að ekki sé rétt strax í byrjun íslenskukennslunnar að leggja mikla áherslu á flókna hluti eins og málfræði, hún komi síðar. Mér fannst afar dýrmætt að ná þessu samtali og stilla saman strengina. Hæfnimatið, samkvæmt Evrópska tungumálarammanum, liggur nú fyrir og er öllum aðgengilegt. Þetta samtal var mikilvægur þáttur í að símenntunarmiðstöðvarnar, sem allar vinna samkvæmt gæðastöðlum EQM+, samhæfi námskeiðslýsingar og námsefni, sem ég tel að muni efla og bæta nám í íslensku sem öðru máli,“ segir Kristín Björk Gunnarsdóttir.