Með hröðum vexti ferðaþjónustunnar í landinu er brýnt að auka hæfni starfsfólks í greininni. Þörfin er til staðar en hún er mismunandi eftir eðli ólíkra fyrirtækja í greininni.
Hæfnisetur ferðaþjónustunnar, sem er vistað hjá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins og var ýtt úr vör í byrjun þessa árs, hefur það beinlínis að markmiði að auka hæfni starfsfólks í ferðaþjónustu. Meðal annars greinir Hæfnisetrið þörfina fyrir fræðslu starfsfólks í ferðaþjónustu og metur hvaða leiðir eru best færar í því sambandi. Með samningi við fjórar símenntunarmiðstöðvar, þar á meðal SÍMEY, í september sl. var formlega hafið tilraunaverkefni sem hefur það að markmiði að fræða starfsfólk í ferðaþjónustu og auka hæfni þess. Í því felst að ná til ferðaþjónustufyrirtækja með fræðslu og þjálfun af ýmsu tagi. Verkferlar verða samhæfðir, aðilar skiptast á efni, ráðgjöf og öðru sem að gagni kemur til að auka hæfni ferðaþjónustufólks.
Þann 14. nóvember sl. var í húsakynnum SÍMEY efnt til morgunverðarfundar til kynningar á Hæfnisetri ferðaþjónustunnar og möguleikum til fræðslu starfsmanna í ferðaþjónustu. Á fundinn mættu 45 fulltrúar frá 20 fyrirtækjum og stofnunum sem starfa í ferðaþjónustu eða tengjast greininni. Í framhaldinu af því var sl. mánudag fundur fulltrúa SÍMEY með Hildi Bettý Kristjánsdóttur starfsmanni Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins og Hæfniseturs ferðaþjónustunnar og fulltrúum Markaðsstofu Norðurlands, Akureyrarstofu, Ferðamálastofu og Einingar-Iðju um næstu skref í verkefninu. Gert er ráð fyrir að þessir samstarfsaðilar hittist aftur í janúar og stilli áfram saman strengi.
Á kynningingarfundinum 14. nóvember sl. kom fram áhugi nokkurra ferðaþjónustufyrirtækja á fræðslu og er gert ráð fyrir að eftir áramót verði þau fyrirtæki heimsótt og þeim kynntir möguleikar í fræðslu og fjármögnun hennar.
Mögulega hentar einhverjum fyrirtækjum að fara inn í verkefnið „Fræðslustjóri að láni“ sem gengur út á að ráðgjafi greini þarfir viðkomandi fyrirtækis og í framhaldinu yrði síðan unnin markviss símenntunar- og fræðsluáætlun fyrir fyrirtækið. Einnig er mögulegt klasasamstarf fyrirtækja í sama geira ferðaþjónustunnar um ákveðna fræðslu.
Allt kemur þetta betur í ljós með næstu skrefum í verkefninu á nýju ári.