Eins og endranær verður fjölmargt áhugavert í boði hjá SÍMEY núna á haustönn. Undirbúningur fyrir veturinn er í fullum gangi og áður en langt um líður hefst nám á hinum ýmsu námsleiðum og boðið verður upp á fjölmörg styttri námskeið.
Nám á þremur lengri námsleiðum hefst núna í ágúst og september, Félagsliðagátt, Leikskóla- og stuðningsfulltrúabrú og Menntastoðum. Þá hefst í október nýtt nám í grafískri hönnun.
Ástæða er til að hvetja fólk til að draga ekki að sækja um nám á þessum námsleiðum til þess að tryggja sér pláss.
Félagsliðagátt
Um er að ræða fjórar annir af sex í námi til þess að fá starfsréttindi félagsliða. Að loknum þessum fjórum önnum í SÍMEY geta nemendur lokið tveimur síðustu önnunum í framhaldsskóla. Áherslan í náminu er á félags-, sál- og uppeldisgreinar auk sérgreina á sviði þjónustu við fatlaða og aldraða.
Nemendur skulu hafa náð 22 ára aldri, hafi þriggja ára starfsreynslu í umönnun og hafi lokið 230 kennslustunda starfstengdum námskeiðum. Boðið er upp á raunfærnimat í upphafi námsins, sem getur nýst til styttingar á náminu.
Nánar hér.
Leikskólaliða- og stuðningsfulltrúabrú
Þetta nám er sett upp fyrir ófaglærða starfsmenn í leik- og grunnskólum og er kennt á fjórum önnum. Nemendur útskrifast sem leikskólaliðar og/eða stuðningsfulltrúar að námi loknu. Lögð er áhersla á félags-, sál- og uppeldisgreinar auk sérgreina á sviði kennslufræði.
Nemendur skulu hafa náð 22 ára aldri, hafi þriggja ára starfsreynslu við uppeldi og umönnun barna í leik- og grunnskólum og hafi lokið 230 kennslustunda starfstengdum námskeiðum. Boðið er upp á raunfærnimat í upphafi námsins, sem getur nýst til styttingar á náminu.
Nánar hér.
Menntastoðir
Í Menntastoðum býðst nemendum að taka almennar bóklegar greinar á 2. þrepi og er námið ætlað þeim sem stefna á nám við undirbúningsdeildir háskóla, þeim sem vilja ljúka framhaldsskóla eða þeim sem vilja efla hæfni sína í bóklegum greinum. Einnig má meta nám í Menntastoðum til eininga í bóklegum greinum iðnnáms. Vert er að taka fram að hægt er að taka staka áfanga í Menntastoðum.
Nánar hér.
Grafísk hönnunarsmiðja
Grafísk hönnunarsmiðja er nýtt nám í SÍMEY sem verður ýtt úr vör í október. Þetta er tíu vikna nám hugsað fyrir nemendur sem vilja taka sínu fyrstu skref í stafrænni hönnun eða þá sem stefna á lengra nám í grafískri hönnun. Einnig nýtist námið vel þeim sem vilja auka við sína kunnáttu til þess að hanna eigið markaðs- og kynningarefni fyrir stafræna miðla og prent.
Nánar hér.