20.nóvember 2017
Á síðasta ári unnu SÍMEY og Þekkingarnet Þingeyinga að verkefninu Dreifðar byggðir – betri byggðir sem fólst í því að greina tækifæri til atvinnusköpunar, annars vegar við vestanverðan Eyjafjörð – frá Hörgá og norður að Hámundarstaðahálsi – og hins vegar í Kelduhverfi. Verkefnið fólst meðal annars í viðtölum við íbúa þessara tveggja svæða og komu fram þar viðhorf þeirra til atvinnumála á svæðunum, tækifæri og ógnir. Á ýmsan hátt eru svæðin ólík en íbúar beggja svæða eru þó sammála um að bæði eigi þau mikla möguleika í ferðaþjónustu. Við vestanverðan Eyjafjörð telja íbúar ekki síst tækifæri felast í nálægð við sjóinn og byggja megi nýsköpunn á nýtingu auðlinda sjávar. Í Kelduhverfi var áhersla íbúanna hins vegar á tækifæri tengd vatnsauðlindum svæðisins og Vatnajökulsþjóðgarði. Einnig komu fram sjónarmið sem tengjast breytingum í landbúnaði með t.d. sérhæfðri framleiðslu á lífrænum afurðum í grænmetis- og kjötframleiðslu.
Verkefninu verður nú fram haldið á grunni stuðnings úr Uppbyggingarsjóði Norðurlands eystra og verður unnið áfram á grunni þeirra hugmynda sem komu fram í áðurnefndum viðtölum við íbúa svæðanna. Áherslan í þessum öðrum hluta Dreifðra byggða – betri byggða verður á fræðslu, nýsköpun og þróun.
Á mánudag og miðvikudag í næstu viku, 27. og 29. nóvember, verður efnt til funda með íbúum þessara tveggja svæða þar sem þeim verða kynntar niðurstöður fyrsta áfanga verkefnisins, farið verður yfir hver séu skilyrði nýsköpunar, hvernig eigi vinna að því að laða fram hugmyndir og útfæra og hvaða stuðningur sé til staðar fyrir frumkvöðla og í þriðja lagi verður vinnustofa þar sem þátttakendur fá tækifæri til að vinna að hugmynd og útfæra hugmynd sem gæti leitt til atvinnusköpunar á svæðinu.
Fundirnir/námskeiðin/vinnustofurnar eru þátttakendum að kostnaðarlausu.
Fundurinn fyrir íbúa við vestanverðan Eyjafjörð verður á Baccalá bar á Hauganesi en fundurinn fyrir íbúa í Kelduhverfi í Gljúfrastofu – gestastofu Vatnajökulsþjóðgarðs í Ásbyrgi.
Dagskrá beggja funda verður með sama sniði; kynning á niðurstöðum fyrsta hluta Dreifðra byggða – betri byggða, erindi fulltrúa Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands á Akureyri, erindi frumkvöðuls, kvöldverður, vinnustofa og samantekt.
Báðir fundir hefjast kl. 16:00 og er miðað við að dagskránni ljúki um kl. 22:00.
Óskað er eftir því að áhugasamir skrái sig til þátttöku fyrir 24. nóvember nk. Skráningar fara fram hjá SÍMEY í síma 460-5720 og hjá Þekkingarneti Þingeyinga í síma 464-5100.
Frekari upplýsingar veita Ingunn Helga Bjarnadóttir ingunn@simey.is og 460-5720, Emil Björnsson emil@simey.is og Helena Eydís Ingólfsdóttir helena@hac.is og 464-5106