Fjölbreytt starf fullorðinsfræðslu fatlaðra á vorönn
05.júní 2018
Starfsemi fullorðinsfræðslu fatlaðra hjá SÍMEY hefur verið með nokkuð hefðbundnu sniði núna á vorönn. Bæði hafa verið í boði styttri námskeið og heildstæðar námsleiðir sem annars vegar njóta fjárhagslegs stuðnings frá Fjölmennt og hins vegar Fræðslumiðstöð atvinnulífsins.
SÍMEY hefur lengi boðið upp á nám af ýmsum toga fyrir fatlað fólk við Fjölmennt – símenntunar- og þekkingarmiðstöð í Reykjavík, sem er sjálfseignarstofnun og fær fjármagn á fjárlögum hvers árs. Þessi þáttur í starfi SÍMEY byggir á fjárframlögum frá Fjölmennt á grunni þjónustusamnings um nám fyrir fatlað fólk.
Fullorðinsfræðsla fatlaðra er afar fjölbreytt og tekur til fólks með þroskahömlun og einnig nær hún til geðfatlaðra og hefur SÍMEY átt gott samstarf við Grófina – geðverndarmiðstöð á Akureyri. Einn af skemmtilegum sprotum þessa samstarfs eru Múrbrjótarnir sem eru reglulegar knattspyrnuæfingar sérstaklega ætlaðar geðfötluðum þar sem áherslan er á hreyfingu og almenna ánægju og vellíðan. Sumarið 2018 verður það þriðja sem boðið er upp á slíkar knattspyrnuæfingar og mun Björk Nóadóttir knattspyrnuþjálfari halda utan um þetta starf í sumar.
Hlutfallslega lækkaðar fjárheimildir frá ríkinu til Fjölmenntar og þar með til símenntunarmiðstöðvanna, þ.m.t. SÍMEY, hafa takmarkað getu þeirra til þess að efla fullorðinsfræðslu fatlaðra. Eins og komið hefur fram í fréttum að undanförnu hafa fjárveitingar á fjárlögum til Fjölmenntar því sem næst staðið í stað undanfarin níu ár, frá árinu 2009. Þannig voru fjárveitingar til Fjölmenntar árið 2009 258 milljónir króna en 259 milljónir á yfirstandandi ári. Til þess að halda í við verðlagsbreytingar á þessum árum hefði upphæðin átt að vera vera 344 milljónir króna í ár, 85 milljónum króna hærri en hún er.
Helgi Þ. Svavarsson verkefnastjóri hjá SÍMEY segir að þessi raunlækkun fjárheimilda takmarki óhjákvæmilega þjónustuframboð í fullorðinsfræðslu fatlaðra en leitast sé við að nýta fjármunina eins vel og kostur sé og koma til móts við óskir fólks um fræðslu.
Helgi segir að núna á vorönn hafi í annað skipti á liðnum tveimur árum verið boðið upp á námsleiðina Sterkari starfsmann. Þessi námsbraut, sem er fjármögnuð með framlagi frá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins, er liður í Atvinnu með stuðningi sem SÍMEY kemur að í samstarfi við Vinnumálastofnun. Helgi segir að núna á vorönn hafi í annað skipti verið boðið upp á þessa námsleið í fullorðinsfræðslu fatlaðra og einnig hafi áður verið boðið upp á námsleiðina Þjónustuliðann. Helgi segir að SÍMEY hafi verið að vinna ákveðið frumkvöðlastarf í þessum efnum í samstarfi við Vinnumálastofnun og árangurinn sé ótvíræður. Ætlunin sé að halda áfram á sömu braut og áhugi sé fyrir því að þróa þetta nám enn frekar með nánari samstarfi við vinnustaðina. Í Sterkari starfmanni er m.a. lögð áhersla á upplýsingatækni, réttindamál á vinnumarkaði, samskipti á vinnustað og margt fleira.
Hér er mynd af nemendum á þessu námskeiði á vorönn á útskriftardegi 14. maí, með einum af kennurum sínum, Önnu Maríu Richardsdóttur. Nemendur settu upp fína sýningu í annarlok og sýndu á sér skemmtilegar hliðar.
Einn af þeim þáttum sem er fastur liður í fullorðinsfræðslu fatlaðra en hverskonar listsköpun. Brynhildur Kristinsdóttir hefur haldið utan um smíða- og myndlistarkennsluna, sem er til húsa í Brekkuskóla. Gaman var að sjá fjölbreytta listsköpun nokkurra nemenda á hátíðinni List án landamæra sem fór fram í Deiglunni á Akureyri dagana 26.-27. maí sl.