13.desember 2015
Mér finnst sérstaklega skemmtilegt að vinna með fullorðnu fólki. Þátttakendur á námskeiðunum okkar núna á haustönn hafa verið á öllum aldri, sá yngsti um tvítugt og sá elsti er kominn yfir sjötugt. Meirihluti þátttakenda hefur verið konur en karlarnir eru að sækja í sig veðrið, segir Bryndís Arnardótttir Billa, sem hefur á haustönn leiðbeint fólki í myndlist í SÍMEY. Síðastliðinn föstudag, 11. desember, var opnuð sýning á verkum nemendanna í húsnæði SÍMEY að Þórsstíg 4 og er fólki velkomið að koma og sjá afrakstur vinnu þeirra. Hér má sjá nokkur af þeim verkum sem eru til sýnis.
Í okkar kennslu göngum við út frá markmiðum símenntunarmiðstöðva sem er að þjónusta einstaklinga 20 ára og eldri. Við hófum þetta nám árið 2013 og í ljós kom að það var mjög mikil spurn eftir verklegri myndlist. Ég tók mig þá til og skrifaði námsskrár fyrir kennsluna sem voru síðan samþykktar af ráðuneytinu. Um er að ræða smiðju í annars vegar teikningu og hins vegar málun og eru áttatíu kennslustundir í hvorri smiðju og sú þriðja er fræðsla í formi og lit og er hún 200 kennslustundir.
Billa er margreyndur kennari í listnámi. Hún kenndi árum saman á listnámsbraut VMA en síðan stofnaði hún eigið fyrirtæki, Listfræðsluna, og hefur sem fyrr segir sinnt listnámsfræðslu í SÍMEY undanfarin tvö ár. Það kom heldur betur í ljós að þörfin var fyrir hendi og áhuginn hefur vaxið ár frá ári. Til að byrja með var Billa eini kennarinn en nú hefur Guðmundur Ármann Sigurjónsson, sem einnig er margreyndur listnámskennari, bæst við og sjá þau í sameiningu um þetta nám hjá SÍMEY. Guðmundur Ármann mun kenna á vörönn, en þá heldur Billa til Flórída þar sem hún hefur kennt í nokkra mánuði undanfarin ár, þessi vetur er sá sjötti, í háskóla þar.
Billa segir að það fólk sem hafi verið á listnámsnámskeiðunum í SÍMEY eigi það sammerkt að hafa lengi langað til þess að spreyta sig á listsköpun en ekki haft tækifæri til þess. Hún segir að markmiðið sé að nemendur tileinki sér ákveðin grunnatriði en líka að þeir átti sig á því ferli sem eigi sér stað í listsköpun. Þannig tileinki nemendur sér ákveðin vinnubrögð til þess að ná sínu takmarki. Á þessari sýningu sýna fjórir hópar afrakstur vinnu sinnar, í það heila hafa hátt í fimmtíu manns verið á þessum námskeiðum núna á haustönn. Við kennum samkvæmt samþykktum námsskrám og heimilt er að meta námið til framhaldsskólaeininga, segir Billa.
Þetta er búið að vera ólýsanlega gaman, bara alveg dásamlegt, segir Elfa Björk Ragnarsdóttir, sem á nokkur verk á sýningunni í Galleríi SÍMEY. Hún segist í gamla daga hafa tekið nokkur námskeið í Myndlistaskólanum á Akureyri en síðan þegar hún sá auglýst myndlistarnámskeið í SÍMEY hafi hún ekki verið lengi að skrá sig. Ég hef lengi haft áhuga á þessu. Ég byrjaði á myndlistarnámskeiðunum í SÍMEY árið 2013 og er núna búin að taka öll þau námskeið sem þar eru í boði, fyrst í teikningu, síðan í málun og loks í formi og litum. Billa og Guðmundur Ármann eru dásamlegir kennarar og hafa kennt mér svo mikið, segir Elfa Björk og segist síður en svo hafa sett penslana á hilluna. Nei, alls ekki. Þetta hefur kveikt í mér að halda áfram. Maður hættir sko alls ekki núna, segir hún og upplýsir að nokkrir nemendur sem hafi fylgst að á námskeiðunum í SÍMEY séu nú í sameiningu að vinna að því að taka húsnæði á leigu fyrir vinnustofu. Og Elfa Björk, sem starfar sem ritari á Sjúkrahúsinu á Akureyri, upplýsir einnig að hún hafi mikinn áhuga á því að mennta sig frekar í myndlist, hún sé núna með það til alvarlegrar skoðunar.
Á vorönn 2016 verður SÍMEY með í boði námskeiðið Fræðsla í formi og lit og á haustönn 2016 býður Billa upp á listasmiðjur sínar í málun og teikningu. Nú er um að gera að skrá sig! Allar frekari upplýsingar um námskeiðin má finna hér á heimasíðu SÍMEY.