Fréttir

Afar gagnlegt námskeið í menningarlæsi

Núna á haustönn hefur Bryndís Arnardóttir – Billa kennt námskeið í menningarlæsi hjá SÍMEY. Þetta er í fyrsta skipti sem þar er boðið upp á slíkt námskeið og segir Billa að reynslan hafi verið mjög góð. Tólf þátttakendur voru í byrjun á námskeiðinu og komu þeir víða að; frá Portúgal, Póllandi, Belgíu, Hollandi, Katalóníu og Rúmeníu. „Á námskeiðinu lagði ég áherslu á að við næðum að finna sameiginlegan flöt til þess að vinna út frá í sjónrænni verkefnavinnu. Við leituðumst við að bera saman ólíkar aðstæður þátttakenda og að þeir deildu með öðrum sinni reynslu og menningarheimi,“ segir Billa. Kennt var á íslensku en ef þátttakendur áttu í erfiðleikum með að skilja hugtök þýddi Billa þau á ensku. „Mér fannst þetta dásamlegt og það var einstaklega skemmtilegt fyrir mig að fá innsýn í þeirra menningarheim um leið og þátttakendunum fannst auðvitað áhugavert að fá innsýn í okkar menningarheim. Þótt sumir þeirra sem voru á námskeiðinu hafi verið hér á landi í nokkur ár fengu þeir nýja sýn og skilning á ýmsa hluti. Ég miðlaði upplýsingum sjónrænt til fólksins og það var mjög áhugavert fyrir okkur öll. Við vorum að gera þetta í fyrsta skipti en ég segi alveg hiklaust að það er mikilvægt að halda áfram á þessari braut. Ég tel til dæmis að varðandi þá flóttamenn sem eru væntanlegir til Akureyrar sé mikilvægt að þeir verði sem fyrst læsir á okkar menningu jafnframt því sem við þurfum sem fyrst að vera læs á þeirra menningu. Í mínum huga er mikilvægt að hafa annað slíkt grunnnámskeið og ég tel einnig vel koma til greina að byggja ofan á þetta námskeið og efna til framhaldsnámskeiðs,“ segir Billa. Sem fyrr segir var kennslan á þessu námskeiði að stórum hluta sjónræn og hér má sjá hluta af því sem nemendur unnu á námskeiðinu. Myndsköpunin er til sýnis í húsnæði SÍMEY að Þórsstíg 4. David Barbosa frá Porto í Portúgal er einn þeirra sem tók þátt í menningarlæsisnámskeiðinu hjá Billu. Hann er hæstánægður með útkomuna og segir að námskeiðið nýtist sér vel. Ástæðuna fyrir því að hann kom til Íslands fyrir nokkrum árum var sú að Brynjólfur Oddsson, skipstjóri hjá Samherja, sem er giftur föðursystur hans, hafi hvatt hann til þess að reyna fyrir sér hér á landi. Í Portúgal hafi hann numið markaðsfræði til þess að nota í ferðamálum en vegna efnahagslægðarinnar þar í landi hafi ekki reynst auðvelt að fá vinnu á því sviði. „Brynjólfur hvatti mig til þess að koma til Akureyrar og úr varð að ég og kærasta mín komum í febrúar 2013 og ég fékk vinnu á veitingastaðnum Strikinu. Seinna fór ég einnig að vinna í frystihúsi ÚA og það varð síðan úr að ég var ráðinn sem kokkur í Sveitahótelinu í Sveinbjarnargerði, þar sem ég starfa í dag og þar búum við líka.“ David segir að yfir vetrarmánuðina sé rólegra í veitingabransanum og þá gefist kostur á að afla sér þekkingar. Úr hafi orðið að bæði hann og kærasta hans ákváðu að taka námskeiðið hjá Billu í menningarlæsi og það hafi verið mjög gagnlegt. „Við kynntumst ýmsu varðandi íslenska menningu og einnig fengum við kennslu í að teikna og mála. Þetta var í senn mjög gagnlegt og skemmtilegt,“ segir David Barbosa.

Fjölbreyttur afrakstur myndlistarnámskeiða

„Mér finnst sérstaklega skemmtilegt að vinna með fullorðnu fólki. Þátttakendur á námskeiðunum okkar núna á haustönn hafa verið á öllum aldri, sá yngsti um tvítugt og sá elsti er kominn yfir sjötugt. Meirihluti þátttakenda hefur verið konur en karlarnir eru að sækja í sig veðrið,“ segir Bryndís Arnardótttir – Billa, sem hefur á haustönn leiðbeint fólki í myndlist í SÍMEY. Síðastliðinn föstudag, 11. desember, var opnuð sýning á verkum nemendanna í húsnæði SÍMEY að Þórsstíg 4 og er fólki velkomið að koma og sjá afrakstur vinnu þeirra. Hér má sjá nokkur af þeim verkum sem eru til sýnis. „Í okkar kennslu göngum við út frá markmiðum símenntunarmiðstöðva sem er að þjónusta einstaklinga 20 ára og eldri. Við hófum þetta nám árið 2013 og í ljós kom að það var mjög mikil spurn eftir verklegri myndlist. Ég tók mig þá til og skrifaði námsskrár fyrir kennsluna sem voru síðan samþykktar af ráðuneytinu. Um er að ræða smiðju í annars vegar teikningu og hins vegar málun og eru áttatíu kennslustundir í hvorri smiðju og sú þriðja er fræðsla í formi og lit og er hún 200 kennslustundir.“ Billa er margreyndur kennari í listnámi. Hún kenndi árum saman á listnámsbraut VMA en síðan stofnaði hún eigið fyrirtæki, Listfræðsluna, og hefur sem fyrr segir sinnt listnámsfræðslu í SÍMEY undanfarin tvö ár. Það kom heldur betur í ljós að þörfin var fyrir hendi og áhuginn hefur vaxið ár frá ári. Til að byrja með var Billa eini kennarinn en nú hefur Guðmundur Ármann Sigurjónsson, sem einnig er margreyndur listnámskennari, bæst við og sjá þau í sameiningu um þetta nám hjá SÍMEY. Guðmundur Ármann mun kenna á vörönn, en þá heldur Billa til Flórída þar sem hún hefur kennt í nokkra mánuði undanfarin ár, þessi vetur er sá sjötti, í háskóla þar. Billa segir að það fólk sem hafi verið á listnámsnámskeiðunum í SÍMEY eigi það sammerkt að hafa lengi langað til þess að spreyta sig á listsköpun en ekki haft tækifæri til þess. Hún segir að markmiðið sé að nemendur tileinki sér ákveðin grunnatriði en líka að þeir átti sig á því ferli sem eigi sér stað í listsköpun. Þannig tileinki nemendur sér ákveðin vinnubrögð til þess að ná sínu takmarki. „Á þessari sýningu sýna fjórir hópar afrakstur vinnu sinnar, í það heila hafa hátt í fimmtíu manns verið á þessum námskeiðum núna á haustönn. Við kennum samkvæmt samþykktum námsskrám og heimilt er að meta námið til framhaldsskólaeininga,“ segir Billa. „Þetta er búið að vera ólýsanlega gaman, bara alveg dásamlegt,“ segir Elfa Björk Ragnarsdóttir, sem á nokkur verk á sýningunni í Galleríi SÍMEY. Hún segist í „gamla daga“ hafa tekið nokkur námskeið í Myndlistaskólanum á Akureyri en síðan þegar hún sá auglýst myndlistarnámskeið í SÍMEY hafi hún ekki verið lengi að skrá sig. „Ég hef lengi haft áhuga á þessu. Ég byrjaði á myndlistarnámskeiðunum í SÍMEY árið 2013 og er núna búin að taka öll þau námskeið sem þar eru í boði, fyrst í teikningu, síðan í málun og loks í formi og litum. Billa og Guðmundur Ármann eru dásamlegir kennarar og hafa kennt mér svo mikið,“ segir Elfa Björk og segist síður en svo hafa sett penslana á hilluna. „Nei, alls ekki. Þetta hefur kveikt í mér að halda áfram. Maður hættir sko alls ekki núna,“ segir hún og upplýsir að nokkrir nemendur sem hafi fylgst að á námskeiðunum í SÍMEY séu nú í sameiningu að vinna að því að taka húsnæði á leigu fyrir vinnustofu. Og Elfa Björk, sem starfar sem ritari á Sjúkrahúsinu á Akureyri, upplýsir einnig að hún hafi mikinn áhuga á því að mennta sig frekar í myndlist, hún sé núna með það til alvarlegrar skoðunar. Á vorönn 2016 verður SÍMEY með í boði námskeiðið Fræðsla í formi og lit og á haustönn 2016 býður Billa upp á listasmiðjur sínar í málun og teikningu. Nú er um að gera að skrá sig! Allar frekari upplýsingar um námskeiðin má finna hér á heimasíðu SÍMEY.

Ánægja með fyrsta markþjálfanámskeiðið á Akureyri

Síðastliðinn föstudag, 11. desember, lauk staðarnámi hjá SÍMEY í markþjálfun. Þetta er jafnframt fyrsta námskeið sinnar tegundar sem SÍMEY býður upp á en til þessa hafa slík námskeið verið í boði í Reykjavík. Leiðbeinandi var Matilda Gregersdotter, sem hefur mikla reynslu á þessu sviði. Hún er MCC vottaður markþjálfi hjá International Coach Federation og hefur hannað ACSTH (Approved Coach Specific Training Hours) vottað prógram hjá International Coach Federation. Fimm konur luku þessu fyrsta markþjálfanámskeiði í SÍMEY og fengu viðurkenningarskjal því til staðfestingar. Matilda Gregersdotter er fædd og uppalin í Stokkhólmi en hefur búið hér á landi síðan 1998. „Þetta námskeið í markþjálfun hér á Akureyri er það fyrsta utan Reykjavíkur,“ segir Matilda en hún setti árið 2004 á stofn fyrirtækið Leiðtoga sem fjórum árum síðar breyttist í Evolvia ehf. og það hefur í dag á sínum snærum markþjálfanám hér á landi. Frá sama ári hefur Evolvia haft ACSTH vottun frá International Coach Federation sem þýðir að ACC markþjálfanám og framhaldsnám í markþjálfun hjá Evolvia er viðurkennt og uppfyllir öll skilyrði og kröfur ICF (International Coach Federation). Í SÍMEY var boðið upp á grunnnám í markþjálfun – svokallað ACC markþjálfanám og sem fyrr segir luku fimm konur staðarnáminu og fengu viðurkenningarskjal því til staðfestingar. „Við hófum námið hér í september og erum núna að ljúka kennslulotunum en síðar í vetur munum við verða áfram í sambandi við þessa nemendur í gegnum netið þar sem þeir verða þjálfaðir í því að veita markþjálfun. Við munum verða í sambandi í netumhverfi vikulega í tíu vikur frá og með lok febrúar.“ En hvað er markþjálfun? Matilda segir að um sé að ræða samtalsaðferð sem lúti ekki síst að því að einstaklingurinn læri ýmislegt um sjálfan sig, varðandi lífið sjálft og starf hvers og eins. Á heimasíðunni www.markthjalfun.is segir m.a.: Markþjálfun er samstarf um krefjandi og skapandi ferli sem vinnur með styrkleika til að hámarka árangur. Markþjálfun byggir á gagnkvæmu trausti og trúnaðarsambandi markþjálfa og viðskiptavinar. Markþjálfun aðstoðar einstaklinga við að skilgreina hvað virkilega skiptir þá máli og hvers vegna, finna kjarnann. Markþjálfar vinna að því að virkja sköpunargleði einstaklinga og hvetja þá til athafna, rúlla hlutum af stað og finna farveg til þess að koma markmiðum í framkvæmd. Markþjálfun nýtist vel á vinnustöðum við að efla enn frekar hæfni starfsmanna og stjórnenda eða stuðla að lausnum á afmörkuðum vandamálum varðandi frammistöðu.  Matilda segir reynsluna sýna að markþjálfun nýtist fólki á ýmsan hátt. Til dæmis komi það stjórnendum fyrirtækja að góðum notum og það sama megi segja um uppalendur. „Markþjálfun nýtist fólki líka vel í hjónabandi. Almennt má segja að það nýtist fólki vel í samskiptum af ýmsum toga. Ég er mjög ánægð með útkomuna hér á Akureyri og tel að þetta námskeið hafi verið mjög árangursríkt,“ segir Matilda. Ekki verður látið staðar numið við þetta eina námskeið í markþjálfun í SÍMEY því 15. febrúar nk. hefst nýtt námskeið. Skráning á það er nú þegar hafin og er hér hægt að fá nánari upplýsingar. Einnig veitir Kristín Björk Gunnarsdóttir hjá SÍMEY nánari upplýsingar. Ekki var annað að heyra að þátttakendur á þessu fyrsta markþjálfanámskeiði á Akureyri væru mjög ánægðir með útkomuna. Á meðfylgjandi mynd eru þátttakendur á námskeiðinu með sín viðurkenningarskjöl ásamt leiðbeinanda. Frá vinstri: Ragnhildur Sverrisdóttir, Áshildur Hlín Valtýsdóttir, Matilda Gregersdotter, Kristín Björk Gunnarsdóttir, Ingibjörg Lóa Birgisdóttir og Ingunn Helga Bjarnadóttir.  

Frestun nemendasýningar Gallerý SÍMEY

Vegna veðurs frestast opnun nemendasýningar í Gallerý SÍMEY í dag. Nánar auglýst síðar.

Auka einbeitingu, draga úr kvíða, efla sjálfsmynd

Hugarfrelsi býður upp á annað námskeið þann 19.11. Fyrr í haust sóttu um 20 manns námskeið sem mikil ánægja var með.

300 manns í námi

Miðvikudaginn 21.október voru hátt í 300 manns í námi hjá SÍMEY þann dag. 170 starfsmenn Búsetudeildar voru á námskeiði um lög og réttindi fatlaðra sem sérfræðingar Velferðaráðuneytis sáu um. Um 50 stjórnendur sátu námskeið á vegum ICE-Lean um straumlínustjórnun (Lean management). Með annarri starfsemi þá var þessum fjölda náð. Þessi námskeið eru dæmi um fjölbreytileika starfseminnar, við hvetjum alla til að kynna sé þá möguleika sem eru í boði, ekki síst stjórnendur á Eyjafjaðarsvæðinu varðandi möguleika í stjórnendanámskeiðum og sí- og endurmenntun fyrir sína vinnustaði.

Að efla einbeitingu og sjálfstraust nemenda

Á námskeiðinu eru kenndar aðferðir Hugarfrelsis; sjálfsstyrking, öndun, jóga, slökun og hugleiðsla. Aðferðirnar miða að því að efla einbeitingu, styrkleika, sjálfsmynd, draga úr kvíða og auka ró og kyrrð nemenda.Innifalið. Kennslubók, verkefnahefti, heilræðaspjöld, geisladiskur með slökunartónlistLengd: 6 klst.kennari: Leiðbeinendur frá Hugarfrelsi (www.hugarfrelsi.is)Hvar: SÍMEY, Þórsstíg 4Hvenær: 13.október kl.13:00-20:00Verð: 29.900

LIFÐU núna! Mindfullness á Akureyri

LIFÐU NÚNA! Mindfulness byltingin er komin til Akureyrar Í boði er hugarró, núvitund, vellíða, gleði og sátt!   — Opinn fyrirlestur með Ásdís Olsen laugardaginn 11. apríl kl. 10:00 til 11:30.  Ef þú hefur ekki stjórn á huganum, hefur hugurinn stjórn á þér!  Mindfulness er öflugasta leiðin sem við þekkjum í dag til að vinna á streitu og efla heilbrigði, jákvætt hugarfar, vellíðan og sátt.  Þetta er áhrifaríkur og umbreytandi fyrirlestur sem veitir þér nýjan skilning á hugarfari, líðan og hegðun.  Við kynnumst því hvernig við getum valið okkur viðhorf og lærum nokkrar hagnýtar Mindfulness æfingar og aðferðir sem gagnast til að staldra við líðandi stund, efla hugarró og sátt.  Lengd: 90 mín.   Kennari: Ásdís Olsen Hvar: SÍMEY Þórsstíg 4 Hvenær: Laugardaginn 11.apríl kl. 10:00 – 11:30 Verð: 5.000,-  ———————— Ásdís Olsen (B.Ed. og M.A.) er skemmtilegur og hrífandi Mindfulness kennari. Hún hefur áralanga reynslu af að kenna Mindfulness við Háskóla Íslands og hefur sérhæft sig í Mindfulness á vinnustöðum.  Ásdís gaf út metsölubókin Meiri hamingja og gerði sjónvarpsþættina Hamingjan sanna á Stöð 2.
— Ásdís lauk kennaranámi í Mindfulness frá Bangor háskóla í Wales – Centre for Mindfulness Research and Practice og sérfræðinámi í Hugrænni atferlismeðferð (HAM) frá Endurmenntun Háskóla Íslands/Oxford, árið 2008. Sjá nánar á www.hamingjuhusid.is    SKRÁNING á www.simey.is eða 460-5720

Samstarf við Sjómennt

SÍMEY hefur gert samning við Fræðslusjóðinn Sjómennt um að þróa bóklegt nám fyrir sjómenn, tungumála og upplýsingatækninámskeið.  Þessi námstilboð verða í boði frá og með næsta hausti. Sjómönnum innan samstarfsfyrirtækjanna verður boðin þátttaka í raunfærnimati m.a. í iðngreinum, fiskveiðum, fiskvinnslu, netagerð ofl.  Þetta er unnið í samstarfi við MÍMI símenntun, IÐUNA fræðslusetur, MSS Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum og Visku Fræðslu og símenntunarmiðstöð Vestmannaeyja. Fræðslumiðstöð Atvinnulífsins er einnig samstarfsaðili. Samstarfsaðilar eru valin fyrirtæki á svæðum samstarfsaðila og stéttarfélög. Megintilgangur verkefnisins er að hvetja sjómenn til símenntunar og náms og að búa til námstilboð sem henta starfsvettvang þeirra. Verkefni þetta hefur mikið yfirfærslugildi.

IPAD og Viský

Hátt í 40 manns sóttu námskeið sem Eining Iðja stóð fyrir í samstarfi við SÍMEY í vikunni. Snorri Guðvarðarson hélt Viskýnámskeið sem var afar vel heppnað og Dóróthea Jónsdóttir hélt grunnnámskeið í notkun spjaldtölvunnar. Almenn ánægja var á meðal þátttakenda og áhugi fyrir frekari lærdómi á þessum sviðum. Eining Iðja hefur á undanförnum misserum verið í samstarfi við SÍMEY um námskeiðaframboð fyrir sína félagsmenn sér að kostnaðarlausu. Fleiri námskeið verða eftir áramót.