16.nóvember 2018
Ástæða til að gefa raunfærnimati gaum
Adam Snær Atlason er 28 ára Vopnfirðingur en flutti skömmu eftir grunnskóla til Þórshafnar og fór að vinna þar í vélsmiðju. Hann var um tíma í Framhaldsskólanum á Laugum en fann sig ekki í bóknámi. Hann fór aftur í vélsmiðjuna og var um tíma til sjós. Til Akureyrar flutti Adam árið 2013 og vann þá fyrst sem suðumaður hjá verktakadeild Íslenska gámafélagsins við að reka niður stálþil, bæði á Akureyri og vestur á Suðureyri. Síðan lá leiðin í Slippinn og þar hefur hann starfað í um fimm ár. Hann segir að á þessum árum hafi hann lært fjölmargt í málmsuðu og öðrum tilfallandi verkefnum í málmiðnaði enda hafi hann verið að vinna með reynslumiklum mönnum sem hafi miðlað af þekkingu sinni. Því hafi hann safnað miklum fróðleik og sérhæfingu í reynslubankann.
Starfsréttindi sem verða ekki frá mér tekin
„Verkstjórarnir hér nefndu við mig að ástæða væri fyrir mig að afla mér starfsréttinda. Það hafði lengi verið inni í myndinni en mér hefur ekki veist auðvelt að fara í skóla vegna þess að ég á fjölskyldu – konu og þrjú börn – og því er meira en að segja það að taka sig upp og setjast á skólabekk. Ég hafði heyrt af þeim möguleika að fara fyrst í raunfærnimat í Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar og ég ákvað að skella mér í það. Ég hafði því samband við SÍMEY og í framhaldinu byrjaði boltinn að rúlla. Í byrjun þurfti SÍMEY staðfestingu á því hversu lengi ég hefði verið í faginu en að lágmarki þarf maður að hafa starfað þrjú ári í sömu starfsgrein til þess að geta átt þess kost að fara í raunfærnimat. Ég vann færnimöppu með starfsfólki SÍMEY, þar sem m.a. er skráð sú þekking og reynsla sem maður hefur aflað sér í gegnum árin. Síðan fór ég upp í Verkmenntaskóla og vann suðustykki með mismunandi suðuaðferðum – pinnasuðu, logsuðu, hlífðargassuðu og TIG-suðu - sem síðan var sent suður til yfirferðar og mats. Þessi suðustykki stóðust matið og því var hægt að halda áfram matsferlinu. Næst var komið að viðtali við matsmenn, sem voru Kristján Kristinsson kennari í VMA og Gústaf Adólf Hjaltason verkerfnastjóri hjá Iðunni fræðslusetri. Þeir fóru í gegnum færnimöppuna og kölluðu fram staðfestingu á þeirri færni sem ég bý yfir. Tvo daga sat ég suðunámskeið sem fór fram í Reykjavík en ég gat tekið í gegnum Skype í SÍMEY hér á Akureyri. Námskeiðin voru lokapunkturinn í þessu ferli og síðan mun ég útskrifast formlega sem málmsuðumaður frá Verkmenntaskólanum á Akureyri í desember nk. og fæ loks sveinsbréf í málmsuðu,“ segir Adam Snær og bætir við að þetta raunfærnimat og staðfesting á færni hans sem málmsuðumaður opni fyrir honum dyr og stytti leiðina til t.d. náms í stálsmíði, vélvirkjun eða öðru tengt málmiðnaði, hafi hann áhuga á að fara í það síðar. „En þau starfsréttindi sem ég fæ út úr raunfærnimatinu verða ekki frá mér tekin og því er þetta afar mikilvægt skref. Auðvitað kitlar að fara í framhaldinu í skóla og afla mér frekari menntunar en það kemur í ljós hvort ég geri það síðar.“
Ekki á nokkurn hátt íþyngjandi
Adam segir að raunfærnimatið sé ekki á nokkurn hátt íþyngjandi og hafi ekki reynst sér erfitt að yfirstíga. Hann segir að Slippurinn hafi veitt sér þann tíma sem til þurfti í þetta verkefni og fyrir það sé hann þakklátur. Adam segist vera nokkuð viss um að fjölmargir sem hafi ekki formlega menntun en búi yfir mikilli þekkingu og reynslu í sinni atvinnugrein hafi ekki áttað sig á þeim möguleika að fara í raunfærnimat. Full ástæða sé til að gefa raunfærnimati gaum því það sé mikilvægt skref fyrir fjölmarga á vinnumarkaði til þess að fá vinnu sína metna til starfsréttinda.
Hvað er raunfærnimat?
Raunfærnimat, hvað er það? Trúlega liggur það ekki alveg í augum uppi og mögulega er hugtakið „raunfærnimat“ ekki nógu lýsandi. En í sem stystu máli fær fólk með raunfærnimati viðurkenningu á færni sinni og getur nýtt það til styttingar á námi, til framgangs í starfi eða að finna starf við hæfi. Skilgreina má raunfærni sem samanlagða færni sem fólk hefur náð í starfi sínu, starfs-, frístunda- eða skólanámi (formlegu eða óformlegu), félagsstörfum og fjölskyldulífi.
Töluverður fjöldi framhaldsskólanema hættir í námi og fer út á vinnumarkaðinn og þess eru mörg dæmi að fólk starfi árum saman í sömu atvinnugrein án þess að hafa lokið námi í viðkomandi grein og byggir upp dýrmæta reynslu og þekkingu.
Fyrir það fólk sem hefur til fjölda ára verið á vinnumarkaði en kýs á einhverjum tímapunkti að sækja sér formlega menntun og staðfestingu á þekkingu sinni og hæfni í viðkomandi starfi er raunfærnimat mikilvægt og öflugt tæki. Ekki aðeins getur það stytt leið fólks að settu marki heldur veitir því einnig sjálfstraust til að takast á við nýjar áskoranir í námi eða varðandi framgang í starfi.
Fræðslusjóður fjármagnar raunfærnimat og það er því þátttakendum að kostnaðarlausu. Skilyrði fyrir að fara í raunfærnimat er að viðkomandi sé að lágmarki tuttugu og þriggja ára og hafi að baki þriggja ára staðfesta starfsreynslu í viðkomandi atvinnugrein.
Um 50 manns á ári í raunfærnimati hjá SÍMEY
Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar er ein þeirra fræðslu- og símenntunarmiðstöðva sem bjóða upp á raunfærnimat í ólíkum starfsgreinum. Í þessu sambandi skal þess getið að á dögunum fékk SÍMEY evrópska gæðavottun, svokallaða European Quality Mark gæðavottun, og tekur hún til hönnunar, þróunar og umsýslu náms í fullorðinsfræðslu, náms- og starfsráðgjafar og raunfærnimats.
Hjá SÍMEY hefur byggst upp mikil reynsla á síðustu árum í raunfærnimati. Nærri lætur að hjá SÍMEY ljúki um 50 manns raunfærnimati á ári. Fólk getur skráð sig í raunfærnimat á heimasíðu SÍMEY – www.simey.is – og fái það grænt ljós fer í gang formlegt ferli sem felst í því að viðkomandi einstaklingur skráir þá raunfærni sem hann hefur öðlast í gegnum starf sitt, nám og frístundir. Hann þarf einnig að safna skjölum sem staðfesta fyrra nám og störf. Staðan er síðan greind og metin í samtali við matsaðila. Að lokum fær hann formlega vottun á því sem metið var. Náms- og starfsráðgjafi er viðkomandi innan handar á meðan á þessu ferli stendur.